RÚV hefur tryggt sér sýningarréttinn á úrslitamótum Evrópukeppni karla í knattspyrnu 2024 og 2028. Evrópumótið 2024 verður haldið í Þýskalandi en ekki hefur verið ákveðið hvar mótið verður haldið 2028. 24 lið komast á lokamótið, annað hvort úr riðlakeppni EM eða umspil Þjóðadeildar UEFA. Þjóðir hafa því tvö tækifæri til að komast á EM.
Íslenska landsliðið komst í átta liða úrslit á EM í Frakklandi 2016 en tapaði naumlega fyrir Ungverjalandi í umspili um laust sæti á EM í sumar.
Áður hafði RÚV tryggt sér sýningarréttinn á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu á Englandi sumarið 2022 þar sem íslenska kvennalandsliðið verður í eldlínunni. Þetta er í fjórða skipti sem íslenska kvennalandsliðið kemst á EM. Liðið tók fyrst þátt í EM í Finnlandi árið 2009 og svo í Svíþjóð 2013 þegar liðið náði sínum besta árangri og komst í átta liða úrslit. Síðast tók kvennalandsliðið þátt í EM 2017 í Hollandi.
Þetta er ánægjuleg niðurstaða, að þessir stóru og mikilvægu íþróttaviðburðir á heimsvísu verði aðgengilegir öllum hér á landi. Það er eitt af hlutverkum Ríkisútvarpsins að leggja rækt við íþróttir og sinna stórviðburðum á borð við úrslitamót EM karla og kvenna í knattspyrnu,“ er haft eftir Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra í tilkynningu.