Feginn en fúll

Frá Skúla bar.
Frá Skúla bar. Ljósmynd/Aðsend

„Hljóðið í mér er betra núna en í gær,“ segir Björn Árna­son, sem rek­ur Skúla Craft bar við Fógetag­arðinn í miðbæ Reykja­vík­ur, í sam­tali við mbl.is. Barir, sem hafa verið lokaðir frá 4. október, geta aftur opnað á mánudag þegar tilslakanir á sóttvarnaaðgerðum taka gildi.

Heim­ilt verður að opna að nýju skemmti­staði, krár, spila­sali og spila­kassa að upp­fyllt­um skil­yrðum. Veit­ingastaðir með áfeng­isveit­ing­ar  skulu ekki hafa opið leng­ur en til kl. 22 á kvöld­in. Sama gild­ir um spila­kassa og spila­sali. Veit­ing­ar skulu af­greidd­ar gest­um í sæti.

Björn segist ánægður að fá að opna, geta fengið starfsfólk í vinnu og tekið á móti gestum. 

„Hins vegar erum við bareigendur enn mjög ósáttir við þá meðferð sem við höfum fengið og teljum að það hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu,“ segir Björn. Áður hafði hann greint frá óánægju sinni þegar veitingastaðir, kaffihús og hótelbarir máttu hafa opið en ekki barir.

Björn segir nokkra bareigendur komna langt á leið með að leggja fram kæru vegna þess og talar um fljótlega eftir helgi í því samhengi. Hann segir að ef það vinnist verði það fordæmisgefandi fyrir alla bareigendur.

„Við viljum tryggja okkur með kærunni þannig að ef önnur bylgja fer í gang að það verði samræmi í reglum um bari, kaffihús og veitingastaði líkt og er í löndunum í kringum okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert