Fossvogsbrúin verður fyrsta kennileitið

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.
Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrirhuguð brú yfir Fossvog verður fyrsta kennileitið sem almenningur mun taka eftir sem við kemur framkvæmdum við borgarlínu. Þá eru framkvæmdir þegar komnar af stað á Landspítalareitnum þar sem gert er ráð fyrir að borgarlínan fari í gegnum. Eftir forhönnunar- og hönnunarferli má gera ráð fyrir að árið 2024 verði fyrsta stóra framkvæmdaárið í ferlinu, en að fyrstu framkvæmdir fari jafnvel af stað aðeins á undan. Þetta segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is

Ný skýrsla með frumdrög­um um fyrstu fram­kvæmdalotu borg­ar­línu­verk­efn­is­ins var kynnt í morg­un, en þar kemur meðal annars fram ítarleg leið fyrstu lotu borgarlínu, staðsetn­ing stoppistöðva, út­færsla á brautarpöll­um og grunn­vinna við hvernig breyta þurfi götu­mynd­um þar sem borg­ar­lín­an mun liggja um.

Aðkoma Vegagerðarinnar frá upphafi

Aðkoma Vegagerðarinnar hefur verið umtalsverð og verður áfram mikil að verkefnum borgarlínu. Byrjaði það með samningi á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Vegagerðarinnar árið 2019 og komu þá fjármunir úr samgönguáætlun. Í framhaldinu var myndaður vinnuhópur með SSH og Strætó og stofnuð var verkefnastofa um borgarlínu. Í lok síðasta árs var svo félagið Betri samgöngur ohf. stofnað sem tók að hluta við verkefnum verkefnastofunnar, en Vegagerðin mun áfram vinna að undirbúningi og framkvæmd verkefna á vegum samgöngusáttmálans. Betri samgöngur munu hins vegar sjá um stefnumörkun, áætlanagerð og fjármögnun.

Bergþóra segir að til viðbótar við aðkomu að hönnun og framkvæmd verkefna sé Vegagerðin með nokkur stór mál tengd borgarlínu á sínu borði þar sem um er að ræða stofnvegaframkvæmdir. Í fyrstu lotu er þar um að ræða Sæbrautarstokk, vestari enda á Miklubrautarstokk og svo gatnamótin við Reykjanesbraut og Bústaðarveg.

Árni M. Mathiesen, stjórnarformaður félagsins Betri samgangna ohf. og Bergþóra …
Árni M. Mathiesen, stjórnarformaður félagsins Betri samgangna ohf. og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar eftir kynninguna í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sex vikna umsagnarfrestur

Frumdragaskýrslan, eins og kynnt var í dag, er að sögn Bergþóru klassískt skref við allar framkvæmdir. Þar er gerð grein fyrir hugmyndinni, hvernig hún rýmist og settar fram grófar magntökuáætlanir. Í framhaldinu sé plaggið notað í kynningu og til umræðu og metið hvort gera þurfi hlutina öðruvísi eða betur.

Segir Bergþóra að áætlað sé að umsagnarferli sem opnað hefur verið fyrir á borgarlinan.is sé hugsað til allavega sex vikna, en á þeim tíma geta allir skilað inn athugasemdum vegna framkvæmdarinnar.

Fossvogsbrúin og Nýi Landspítalinn

Forhönnun verkefnisins fer svo af stað og telur Bergþór að hún muni taka allavega eitt og hálft ár. Fari þá fram ítranir og hugsanlegar breytingar, en að því loknu er komið að hönnun. Í millitíðinni segir hún að mögulega verði byrjað á Fossvogsbrúnni og að brúin geti þar með orðið að fyrstu kennileitum borgarlínunnar sem almenningur taki eftir. Brúin er hugsuð fyrir gangandi og hjólandi sem og almenningsvagna, en ekki almenna umferð bifreiða.

Samhliða þessu bendir hún á að framkvæmdir á lóð Nýja Landspítalans séu þegar hafnar, en þar mun verða ein af stoppistöðvum borgarlínunnar. Landspítalalóðin og Fossvogsbrúin verða því að öllum líkindum fyrstu merkin um borgarlínuframkvæmdina í heild sinni, en áætlað er að framkvæmdir muni standa yfir til ársins 2034 í samtals sex lotum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert