14 km og 24,9 milljarðar í fyrsta áfanga

Fyrsta framkvæmdalota borgarlínu var kynnt í dag. Á þessari teikningu …
Fyrsta framkvæmdalota borgarlínu var kynnt í dag. Á þessari teikningu má sjá áformaða legu í gegnum Hlíðarenda. Teikning/Borgarlínan

Fyrsta framkvæmdalota borgarlínu mun standa yfir frá 2021 til 2025 og vera samtals 14 km löng frá Ártúnshöfða niður í miðbæ og yfir Fossvog í Hamraborg. Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina er 24,9 milljarðar, en samhliða uppbyggingu borgarlínu er gert ráð fyrir 18 km af nýjum hjólastígum og 9 km af göngustígum. Göturými þar sem borgarlínan fer um mun „í mörgum tilvikum taka stakkaskiptum.“ Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um fyrstu framkvæmdarlotuna sem kynnt var í streymi nú fyrir hádegi.

Á þessu korti má sjá þá leið sem áætlað er …
Á þessu korti má sjá þá leið sem áætlað er að fara með borgarlínuna frá Ártúnshöfða niður í miðbæ og svo yfir Fossvog í Hamraborg. Ekki hefur enn verið útfærð nákvæm staðsetning í Vogahverfi, en enn er unnið að skipulagi þess hverfis auk þess sem mið þarf að taka af áætluðum framkvæmdum við Sæbraut í stokk. Kort/Borgarlínan

Í 70% tilfella verður borgarlínan í sérrými 

Í skýrslunni er í fyrsta skiptið sýnt nákvæmlega hvernig lega borgarlínunnar í þessum fyrsta áfanga er áformuð. Sýnt er uppbygging brautarpalla, staðsetning stoppistöðva, hvernig áformað er að borgarlína, hjólastíga og göngustígar verða í þeim götum sem farið verður um. Á sumum stöðum er gert ráð fyrir að borgarlínan muni verða á sér akrein í hvora átt með akreinar fyrir almenna umferða samsíða, en á öðrum stöðum verður aðeins um borgarlínuakreinar að ræða, eða blöndu þar á milli. Fram kom á kynningarfundinum að gert væri ráð fyrir að borgarlínan yrði í 70% tilfella í sérrými, en í 30% tilfella væri farin blönduð leið.

Hér má sjá snið af því hvernig borgarlínugötur gætu litið …
Hér má sjá snið af því hvernig borgarlínugötur gætu litið út, en fyrir neðan má einnig sjá þá breidd sem ákveðnar götur bjóða upp á. Því er ljóst að ekki verður alltaf hægt að fara þessa leið 100%. Teikning/Borgarlínan

Sem dæmi má nefna að í Lækjargötu er gert ráð fyrir tveimur akreinum fyrir borgarlínu og tveimur fyrir almenna umferð. Á milli Barónsstigs og Snorrabrautar verður Hverfisgatan aðeins fyrir borgarlínu og Suðurgatan verður einstefna með einni akrein fyrir borgarlínu. Suðurlandsbraut fyrir ofan Laugardal verður með borgarlínuakreinum í miðjunni og einni akrein fyrir almenna umferð í hvora átt fyrir utan. Hægt er að sjá nánar í meðfylgjandi skýrslu hvernig breytingar í hverri götu og við hver gatnamót eru áformaðar.

Nokkrar mismunandi útfærslur á því hvernig borgarlínugötur geta litið út.
Nokkrar mismunandi útfærslur á því hvernig borgarlínugötur geta litið út. Teikning/Borgarlínan

Í þessari fyrstu framkvæmdalotu er gert ráð fyrir að borgarlínan liggi frá Ártúnshöfða yfir nýja brú við Elliðaárvog, eftir Suðurlandsbraut að Hlemmi og niður Hverfisgötu að Lækjargötu. Frá miðbænum verður svo farið að Háskóla Íslands, þaðan meðfram Landspítalanum og í gegnum Vatnsmýri að Háskólanum í Reykjavík og yfir nýja brú yfir Fossvog. Þaðan verður farið eftir Borgarholtsbraut framhjá Sundlaug Kópavogs í Hamraborg.

Næstu áfangar í kjölfar þess fyrsta eru svo tenging frá Hamraborg upp í Lindahverfi í Kópavogi, frá miðbæ Reykjavíkur í Mjóddina og upp á Ártúnshöfða eftir Miklubraut.

Áætla svipað rekstrarframlag

Samhliða framkvæmdaáætluninni og hönnuninni sem kynnt er í dag er nýtt samgöngulíkan fyrir höfuðborgarsvæðið kynnt. Er það meðal annars notað til að meta áætlaða notkun borgarlínunnar. Miðað við fyrstu niðurstöður um rekstaráætlun, að teknu tilliti til nýs leiðarnets, er núverandi framlag ríkis og sveitarfélaga verði svipað til ársins 2034 og nú er, þó að framlagið gæti orðið 1-2 milljörðum hærra í upphafi, en miðað er við árið 2024.

Áætlaður kostnaður við fyrsta áfanga borgarlínunnar.
Áætlaður kostnaður við fyrsta áfanga borgarlínunnar. Tafla/Borgarlínan

Stærsta framlagið kemur úr samgöngusáttmála

Sem fyrr segir er stofnkostnaður við framkvæmdina um 24,9 milljarðar, en í skýrslunni kemur fram að þar sé gert ráð fyrir 40% óvissu í kostnaðaráætlun. Stærsta framlagið til að fjármagna þetta kemur með samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, eða 18,65 milljarðar. Þá mun Reykjavíkurborg leggja til 5,5 milljarða og Kópavogsbær 550 milljónir. Nýi Landspítalinn mun einnig leggja til 200 milljónir, en borgarlínan mun fara um svæði spítalans.

Taflan sýnir kostnaðar- og ábatagreiningu sem sett hefur verið fram …
Taflan sýnir kostnaðar- og ábatagreiningu sem sett hefur verið fram um borgarlínuverkefnið. Tafla/Borgarlínan

Styttri ferðatími fyrir almenningssamgöngur en lengri fyrir almenna umferð

Samkvæmt kostnaðar- og ábatagreiningu til næstu 30 ára, sem kynnt er í skýrslunni, verður núvirtur ábati af framkvæmdinni 25,6 milljarðar. Lang stærsti ábatinn er tilkominn vegna styttri ferðatíma í almenningssamgöngum, eða 93,6 milljarðar. Hins vegar er neikvæður ábati vegna ferðatíma fyrir bíla og vöruflutninga upp á 19,4 milljarða. Samanlagður notendaábati er talinn nema 71,2 milljörðum, en stofnkostnaður og rekstrarkostnaður auk annarra áhrifa lækkar þá tölu svo niður í 25,6 milljarða.

Áætlað er að auka tíðni vagna borgarlínunnar talsvert miðað við …
Áætlað er að auka tíðni vagna borgarlínunnar talsvert miðað við núverandi leiðarkerfi Strætó og er miðað við þessa tíðni á stofnleiðum og almennum leiðum í nýju leiðarplani. Tafla/Borgarlínan

Stöðvarnar sem kynntar voru í dag eru eftirfarandi (frá Ártúnshöfða, niður í bæ og í Kópavog), en sjá má nánari kort yfir leiðir og stoppistöðvar hér að neðan.

  • Krossmýrartorg
  • Sævarhöfði
  • Vogabyggð
  • Skeifan
  • Laugardalur
  • Laugardalshöll
  • Lágmúli
  • Hátún
  • Hlemmur
  • Frakkastígur
  • Smiðjustígur
  • Lækjargata
  • Alþingi
  • Hallargarðurinn
  • Þjóðminjasafnið
  • Veröld
  • Vísindagarðar
  • BSÍ
  • Landspítali
  • Öskjuhlíð
  • HR
  • Bakkabraut
  • Stelluróló
  • Sundlaug Kópavogs
  • Hamraborg
Gert er ráð fyrir stórum stoppistöðvum bæði við Vogabyggð og …
Gert er ráð fyrir stórum stoppistöðvum bæði við Vogabyggð og Krossmýrartorg, þar sem gert er ráð fyrir skiptistöð. Leiðin um Vogabyggð hefur enn ekki verið full unnin, meðal annars vegna þess að eftir er að útfæra Sæbraut í stokk. Kort/Borgarlínan
Borgarlínan mun liggja frá Vogabyggð eftir Suðurlandsbraut og Laugarvegi áleiðis …
Borgarlínan mun liggja frá Vogabyggð eftir Suðurlandsbraut og Laugarvegi áleiðis niður í miðbæ. Gert er ráð fyrir fimm stoppistöðvum á þessum legg. Kort/Borgarlínan
Í gegnum miðbæinn verður farið um Hverfisgötuna og svo í …
Í gegnum miðbæinn verður farið um Hverfisgötuna og svo í kringum Tjörnina. Kort/Borgarlínan
Við háskólasvæðið er gert ráð fyrir þremur stoppistöðvum.
Við háskólasvæðið er gert ráð fyrir þremur stoppistöðvum. Kort/Borgarlínan
Frá Landspítalanum er gert ráð fyrir að fara í gegnum …
Frá Landspítalanum er gert ráð fyrir að fara í gegnum Hlíðarendahverfi niður að Háskólanum í Reykjavík. Kort/Borgarlínan
Gert er ráð fyrir fjórum stoppistöðvum á Kársnesi.
Gert er ráð fyrir fjórum stoppistöðvum á Kársnesi. Kort/Borgarlínan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert