Hjónaband Freyju Egilsdóttur Mogensen og mannsins sem hefur játað að hafa orðið henni að bana á heimili þeirra vakti blendin viðbrögð í fjölskyldu hennar.
Þau gengu í hjónaband í ráðhúsinu í Árósum 7. september 2013. 7-9-13.
Þeir sem voru nánir Freyju vissu allir af myrkri fortíð mannsins, sem starfaði sem sérfræðingur í upplýsingatækni. Hann hafði stungið fyrrverandi kærustu sína 18 sinnum í íbúð hennar árið 1995.
Sonur þeirra var tveggja ára á þessum tíma og höfðu feðgarnir hist reglulega eftir að foreldrarnir hættu saman, að sögn Ekstra Bladet.
Freyja vissi sömuleiðis af fortíð mannsins. Þau tvö hittust þegar hann stundaði nám í viðskiptaskóla eftir að hafa afplánað tíu ára fangelsisdóm fyrir að hafa orðið hinni konunni að bana.
Hann var ekkert sérstaklega vinsæll en fortíðin var lítið rædd nema eitt sinn í samkvæmi þar sem Freyja var á meðal gesta. Þar var hún spurð hvort hún hefði engar áhyggjur af því að maðurinn hefði drepið móður drengsins. Svaraði hún því neitandi, að sögn ættingja sem blaðið ræddi við.
Enginn þeirra sem blaðið hafði samband við sagði manninn hafa í gegnum tíðina sýnt merki um árásarhneigð. Að sögn samstarfsmanns hefur hann ávallt verið rólegur og yfirvegaður. Einnig hefur honum verið lýst sem gáfuðum, hæfileikaríkum og eins konar nörd.
Annar samstarfsmaður hans hjá flutningafyrirtæki, þar sem maðurinn starfaði í níu ár, lýsir honum sem staðföstum. Hann var aldrei feiminn við að hafa samband við yfirmenn ef hann var ósáttur. Annar náinn samstarfsmaður segir að hann sé viðkvæmur, heldur þurr á manninn en þægilegur. Hann hafi ekki viljað tala mikið um einkalíf sitt er þeir störfuðu saman.
Freyja var 43 ára þegar hún lést og skilur eftir sig tvö ung börn, sem einnig eru börn mannsins.