Ísland er með algjöra sérstöðu þegar tölur yfir kórónuveirusmit í Evrópu eru skoðaðar. Hér á landi er nýgengi smita 10,92 miðað við 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikurnar samkvæmt Sóttvarnastofnun Evrópu. Það land sem kemur næst er Grikkland með 77,86 smit.
Fyrir viku voru nokkrar grískar eyjar grænar á kortinu líkt og Ísland en ekki lengur. Nú er hluti Noregs grænn líkt og Ísland sem og Álandseyjar. Bent er á að Færeyjar eru ekki með á kortinu þar sem ekki eru birtar sérstakar upplýsingar fyrir eyjarnar.
Sóttvarnastofnun Evrópu hefur birt tölur yfir smit í ríkjum Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssambandsins en tölurnar eru birtar einu sinni í viku. Nýgengið er hæst í Portúgal eða 1.652,47.
Greint var frá því á covid.is í gær að nýgengi smita innanlands er nú 3,5 miðað við 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikurnar en 6,5 á landamærunum. Tölurnar sem Sóttvarnastofnun Evrópu birtir eru aftur á móti síðan í lok síðustu viku.
Ef Norðurlöndin eru skoðuð sést að í Noregi er nýgengi smita 80,98 en 93,24 í Finnlandi. Í Danmörku er það 156,13 og 429,49 í Svíþjóð.
Búlgaría er með 99,07 smit á hverja 100 þúsund íbúa en aðeins fimm ríki innan ESB og EES eru með undir 100 smit á hverja 100 þúsund íbúa.
Á Spáni er smittalan áfram há eða 1.036,18. Í Tékklandi er hún 896,51 og 818,93 í Slóveníu. Bretland er ekki lengur með í þessari talningu þar sem það hefur yfir gefið ESB.