Jón Steinar sýknaður í Hæstarétti

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari.
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Stein­ar Gunn­laugs­son, fyrr­ver­andi hæsta­rétt­ar­dóm­ari, var í Hæstarétti í dag sýknaður af kröfu Bene­dikts Boga­son­ar, forseta Hæstaréttar, í meiðyrðamáli sem sá síðar­nefndi höfðaði fyrst árið 2017.

Jón Stein­ar hefur áður verið sýknaður í Héraðsdómi Reykja­ness og í Lands­rétti.

Í mál­inu fór Bene­dikt fram á að fimm um­mæli í bók Jón Stein­ars í rit­inu „Með lognið í fangið - Um af­glöp Hæsta­rétt­ar eft­ir hrun“ yrðu dæmd dauð og ómerk. Þá fór dóm­ar­inn einnig fram á að fá greidd­ar tvær millj­ón­ir í miska­bæt­ur.

Byggði hann mál­sókn sína á að um­mæl­in „dóms­morð“ væru ærumeiðandi aðdrótt­an­ir eins og þau birt­ust í bók­inni og Jón Stein­ar hefði með þeim full­yrt að Bene­dikt hefði af ásetn­ingi kom­ist að rangri niður­stöðu í dóms­máli með þeim af­leiðing­um að sak­laus maður hefði verið sak­felld­ur og dæmd­ur í fang­elsi.

Í júní 2018 sýknaði Héraðsdóm­ur Reykja­ness Jón Stein­ar sem fyrr seg­ir og Lands­rétt­ur staðfesti þá niður­stöðu í nóv­em­ber árið 2019. 

Málflutningur fyrir Hæstarétti fór fram 8. janúar síðastliðinn.

Liður í rökstuddri umfjöllun

Í dómi Hæstaréttar kom fram að ummælin hefðu verið liður í rökstuddri umfjöllun Jóns Steinars um mikilsvert málefni sem rúmt tjáningarfrelsi gildi um. Eining að þótt ummælin hefðu haft á sér býsna sterkt yfirbragð staðhæfinga yrði talið rétt að líta svo á að í þeim öllum hefði falist gildisdómur Jóns Steinars eða ályktanir sem hann taldi sig hafa getið dregið af atvikum máls og aðstæðum öllu. 

Þótt ummælin séu bæði beinskeytt og afar hvöss, samkvæmt orðanna hljóðan og í því samhengi sem þau standa, verður ekki talið að þau séu svo úr hófi fram að þörf sé á því í lýðræðislegu samfélagi, í þágu orðspors annarra eða trausts á dómstólum, að takmarka tjáningarfrelsi gagnáfrýjanda með því að ómerkja þau,“ segir í dómi Hæstaréttar

Ekki persónuleg aðdróttun

Þá kom fram í dómi réttarins að þótt ljóst væri að ummælin hefðu meðal annars átt við um Benedikt og kynnu að hafa vegið að starfsheiðri hans yrði hvorki talið að í þeim hefði falist hrein móðgun né sérstaklega gróf eða persónuleg aðdróttun.

„Að því gættu að rétturinn til að tjá ósanngjörn, móðgandi og stuðandi ummæli í þessu samhengi nýtur verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar verður að líta svo á að gagnáfrýjandi hafi með ummælum sínum ekki vegið svo að æru aðaláfrýjanda að það hafi farið út fyrir þau mörk tjáningarfrelsisins sem lög og réttarframkvæmd hafa mótað. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms er því staðfest,“ segir í dómi Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert