Búið er að kryfja lík Freyju Egilsdóttur Mogensen, sem var myrt á heimili sínu í Malling í Danmörku.
Michael Kjeldgaard, yfirlögregluþjónn á Austur-Jótlandi, segist í samtali við mbl.is ekki geta sagt frá niðurstöðum krufningarinnar að svo stöddu.
Maðurinn er sakaður um að hafa þrengt að öndunarvegi Freyju með þeim afleiðingum að hún lést.
„Rannsóknin gengur vel en vegna rannsóknarhagsmuna get ég ekki farið nákvæmlega út í hvað hún hefur leitt í ljós,“ segir Kjeldgaard.
Aðspurður segir hann þó nokkra hafa verið yfirheyrða vegna málsins í nágrenninu. Verið er að skoða alla möguleika og reynir lögreglan hvað hún getur til að afla fleiri sönnunargagna.
Kjeldgaard kveðst ekki geta sagt hvar börn Freyju og mannsins sem játaði að hafa orðið henni að bana voru stödd þegar hún var myrt. Núna eru þau hjá nánum ættingjum og einnig hafa þau fengið aðstoð frá sérfræðingum.
Miðlæg rannsóknardeild íslensku lögreglunnar hefur boðist til að hjálpa lögreglunni á Austur-Jótlandi við rannsóknina en ekki hefur enn komið til þess. „Við höfum einblínt á morðið sjálft og eins og í öllum morðrannsóknum erum við að skoða staðreyndirnar í tengslum við morðið. En ég get ekki útilokað að við höfum samband við lögregluna ef við þurfum á bakgrunnsupplýsingum að halda,“ segir Kjeldgaard.