Lagði ekki til breytingar á landamærum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dómsmálaráðherra hafa ekki borist tillögur frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni um hertar sóttvarnaaðgerðir á landamærum landsins, enda þótt sóttvarnalæknir hafi boðað að með nýjum sóttvarnalögum sé lagður lagagrundvöllur fyrir öðru eins.

Sóttvarnalæknir boðaði á upplýsingafundi almannavarna í gær að til greina kæmi að herða ráðstafanir á landamærum enn frekar frá því sem nú er en þegar ber öllum sem hingað koma að fara í tvöfalda skimun með fimm daga sóttkví á milli.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir staðfesti fyrr í dag við mbl.is að engar tillögur um breytingar á þessu sviði hafi borist henni frá sóttvarnalækni. Nýju lögin voru samþykkt einróma á Alþingi í gær.

Hægt að setja fólk í sóttkví eða vísa því úr landi

Þórólfur sagði við mbl.is í dag að mikilvægasta breytingin sem gerð hafi verið með frumvarpinu hafi verið sú að nú sé hægt að beita ákveðnum ráðstöfunum til að setja fólk í sóttkví jafnvel þó að ekki væri um staðfesta sýkingu að ræða, heldur aðeins grun um smit.

Einnig hefur sá möguleiki verið nefndur að vísa fólki úr landi ef það neitar að gangast undir reglurnar sem hér eru í gildi.

Hann sagði í gær að í ljósi góðrar stöðu í faraldrinum hér á landi stafaði mesta ógnin af landamærunum; þar greindust flest virk smit í samanburði við smittölur innanlands. Þá nefndi hann hættuna af bresku afbrigði veirunnar, sem leikur nú margar nágrannaþjóðir grátt, enda talið meira smitandi en hefðbundið afbrigði kórónuveiru.

Vægar tilslakanir í aðgerðum innanlands taka gildi á mánudaginn, þar sem líkamsræktarstöðvar geta tekið upp starfsemi með minni takmörkunum, skemmtistaðir og krár mega hafa opið til 22 á kvöldin og fjöldatakmörk gesta á sviðslistaviðburðum verða færð í 150 úr 100. Nánar má lesa um aðgerðirnar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert