Vetrarhátíð hófst í gærkvöldi og er áherslan að þessu sinni á ljóslistaverk utandyra. Þannig má ganga svokallaða ljósaslóð sem leið liggur frá Ráðhúsi Reykjavíkur á Austurvöll og upp að Hallgrímskirkju, sem sjálf er prýdd ljóslistaverki.
Veturinn það sem af er hefur verið sá snjóléttasti í Reykjavík í hundrað ár, eða allt frá því snjóhulumælingar hófust í höfuðborginni árið 1921. Hins vegar hefur allt verið á kafi í snjó á Norðurlandi.
Í janúar var enginn alhvítur dagur í Reykjavík. Á Akureyri voru alhvítir dagar 22, til samanburðar. Alhvítir dagar í Reykjavík eru aðeins þrír talsins í vetur. Fyrra met er frá árunum 1976-77, fimm dagar. Alhvítir dagar á Akureyri voru orðnir 44 í janúarlok. Í Reykjavík var enginn alhvítur dagur í október, einn í nóvember og tveir í desember. „En veturinn er langt í frá búinn,“ segir Trausti Jónsson veðurfræðingur, í umfjöllun um snjóaveturinn litla í Morgunblaðinu í dag.