Sýknuð af hlutdeild í nauðgun á þroskahamlaðri stúlku

Héraðsdómur dæmdi konuna í fangelsi fyrir að liðsinna kærasta sínum …
Héraðsdómur dæmdi konuna í fangelsi fyrir að liðsinna kærasta sínum við nauðgun, en hún var svo sýknuð í Landsrétti. mbl.is/Hanna

Landsréttur sneri í dag við sakfellingu Héraðsdóms Vestfjarða frá 2018 vegna nauðgunar á þroskahamlaðri stúlku.

Þar hafði kona verið dæmd til tveggja ára fangelsisvistar fyrir að aðstoðað kærasta sinn við að nauðga stúlkunni með því að gefa henni lyf, og að hafa fróað sér við hlið þeirra á meðan verknaðinum stóð.

Samkvæmt ákæru héraðssaksóknara á kærasti konunnar að hafa látið stúlkuna hafa við sig munnmök, stungið fingri inn í leggöng hennar og haft við hana samræði. Maðurinn hafi notfært sér yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni, þar sem hún er þroskahömluð og var undir áhrifum lyfja og/eða vímuefna, og hafi notið aðstoðar kærustu sinnar til þess að nauðga stúlkunni.

Lést í málaferlinu

Maðurinn sem ákærður var fyrir nauðgunina lést svo skömmu eftir að málið fór fyrir dóm, og var mál saksóknara á hendur honum því fellt niður. Eftir stóð því kærasta mannsins, sem sökuð var um hlutdeild í brotinu með því að hafa gefið stúlkunni óþekkta töflu og látið hana reykja kannabisefni.

Þannig hafi hún veitt manninum liðsinni í verki, en síðan á hún að hafa legið við hlið kærasta síns og stúlkunnar og horft á og fróað sér á meðan nauðgunin átti sér stað.

Fyrir þetta var konan dæmd til tveggja ára fangelsisvistar fyrir Héraðsdómi Vestfjarða, og var enn fremur dæmd til að greiða stúlkunni eina milljón króna í miskabætur auk rúmlega 3,2 milljóna króna í sakarkostnað.

Refsidómi snúið við

Í kjölfar dómsins var málinu skotið til Landsréttar, og kvað rétturinn upp sýknudóm yfir konunni í dag.

Í röksemdafærslu Landsréttar segir að saksóknara hafi ekki tekist að sanna að konan hefði gefið stúlkunni töflu sem leitt hafi til þess að hún hefði orðið mjög sljóvguð.

Enn fremur hafi saksóknara ekki tekist sönnun þess að konunni hafi verið kunnugt eða látið sér í léttu rúmi liggja hvort stúlkan væri þroskahömluð þegar atvik áttu sér stað.

Þá hafi ekki heldur tekist að sanna að konan hafi haft ásetning til hlutdeildar í nauðgun.

Dómur Landsréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert