„Enn ein skýrslan um bágt ástand á húsnæðismarkaði leit dagsins ljós í upphafi vikunnar. Í henni voru ekki að finna ný tíðindi heldur staðfestingu á því sem hefur verið til umfjöllunar áður: Það vantar íbúðir, við byggjum ekki nóg, margir búa í hræðilegu húsnæði, það er ólíðandi.“
Þannig hefst föstudagspistill Drífu Snædal, forseta ASÍ, þar sem hún fjallar meðal annars um ástandið á húsnæðismarkaði.
Áætlað er að um 5.000-7.000 einstaklingar búi nú í um 1.500 til 2.000 óleyfisíbúðum, þ.e. í húsnæði sem skipulagt er undir atvinnustarfsemi en nýtt til íbúðar fyrir einstaklinga.
„Við vitum þetta og höfum vitað lengi og við vitum meira að segja hvernig á að leysa málið. Það þarf að skipuleggja fleiri byggingalóðir, m.a. Keldnaland og byggja þar hagkvæmar íbúðir og það þarf að styrkja stöðu leigjenda á leigumarkaðnum með samþykkt nýrra húsaleigulaga. Frumvarpið hefur verið tilbúið í meira en ár en einhverra hluta vegna hefur það ekki verið lagt fyrir þingið,“ skrifar Drífa.
Hún segir að þar sé meðal annars að finna leigubremsu sem þýðir að leigusalar geti ekki hækkað leigu eins og þeim sýnist. Leigusamningar verða skráningarskyldir og í frumvarpinu er viðurkennt að staða leigjenda sé verri en leigusala.
„Það er löngu kominn tími til að löggjöfin endurspegli þann veruleika. Látum skýrslu samráðshóps um óleyfisbúsetu ekki verða enn eina staðfestinguna á því sem við vitum án þess að nokkuð sé gert. Félagsleg og líkamleg heilsa fólks er í húfi,“ skrifar Drífa.