„Þrjú atriði sem við verðum dæmd af“

Árni M. Mathiesen, stjórnarformaður félagsins Betri samgangna ohf. - Kynning …
Árni M. Mathiesen, stjórnarformaður félagsins Betri samgangna ohf. - Kynning á frumdrögum fyrstu framkvæmdalotu borgarlínu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Árni M. Mathiesen, stjórnarformaður félagsins Betri samgangna ohf., segir að með ný skýrsla með frumdrögum um fyrstu framkvæmdalotu borgarlínuverkefnisins, sem kynnt var í morgun, sé stiginn stór áfangi og að loksins sé komið fram eitthvað sem hönd á festi sem geti verið útgangspunktur í umræðum um hönnun og framkvæmd verkefnisins.

Í samtali við mbl.is segir Árni að lengi hafi verið rætt um borgarlínuverkefnið í opinberri og almennri umræðu án þess að hafa fulla vitneskju um viðfangsefnið. „Núna geta menn gert það með hliðsjón af þessum gögnum,“ segir hann, en í skýrslunni eru sett fram drög að því hver lega fyrsta áfanga borgarlínu verður frá Ártúnshöfða niður í miðbæ og svo yfir Fossvog og í Hamraborg. Þá kemur fram staðsetning stoppistöðva, útfærsla á brautarpöllum og grunnvinna við hvernig breyta þurfi götumyndum þar sem borgarlínan mun liggja um.

Segir Árni að með skýrslunni geti bæði þeir sem hafi verið sáttir og ósáttir með hugmyndina skoðað hana ítarlega og þeir sem eru ósáttir sett fram athugasemdir sem hönnunar og framkvæmdahópur verkefnisins geti þá tekið inn í vinnsluna, að því gefnu að athugasemdirnar séu í samræmi við þau markmið sem reynt er að ná fram.

Árni segir að þrjár megináskoranir séu í tengslum við borgarlínuverkefnið og „þrjú atriði sem við verðum dæmd af“ og vísar þá til þeirra sem stýra verkefninu. „Í fyrsta lagi að tímasetningar standist. Í örðu lagi að kostnaðaráætlun standist og í þriðja lagi að markmið um samgönguhegðun náist. Og þetta síðasta er lykilatriði í verkefninu í heild,“ segir hann.

Fyrsta framkvæmdalota á að standa yfir frá þessu ári fram til ársins 2025, en gert er ráð fyrir að frumhönnunarvinna verði fyrstu tvö árin og framkvæmdir geti hafist að einhverju leyti árið 2023 og fari svo af stað af fullum krafti árið 2024. Samkvæmt kostnaðaráætlun er gert ráð fyrir að stofnkostnaður verkefnisins verði 24,9 milljarðar, en tekið er fram í skýrslunni að inn í þeirri tölu sé 40% óvissa. Árni segir að meðan aðeins sé um frumdrög að ræða sé þetta hefðbundið óvissuhlutfall. Segir hann ekki hægt að gera endanlegar kröfur um nákvæmari áætlanir fyrr en hönnun er lokið.

Markmiðið „ekkert gríðarlega metnaðarfull“ í alþjóðlegum samanburði

Spurður út í áhyggjur af kostnaði við stærri framkvæmdir og þeirri leitni að slíkar framkvæmdir hafi oft farið fram úr áætlun segir Árni að slíkt sé stórt vandamál hér á landi, en að miðað við rífleg skekkjumörk í dag geri hann ráð fyrir að endanlegar tölur verði innan þess ramma. „Okkur ber alltaf skylda til þess að fara þá leið sem er hagkvæmust í fjárhagslegum skilningi að teknu tilliti til þess að við náum þeim markmiðum sem okkur hafa verið sett,“ segir hann.

Varðandi breytingar á samgönguhegðun segir Árni að ná þurfi hlut almenningssamgangna úr 4% af heildarferðum upp í 12%. Segir hann þau markmið „ekkert gríðarlega metnaðarfull“ í alþjóðlegum samanburði, en samt nokkuð stóra breytingu í íslensku samfélagi.

Teikning sem sýnir drög að því hvernig borgarlínan gæti litið …
Teikning sem sýnir drög að því hvernig borgarlínan gæti litið út. Teikning/Borgarlínan

Almenningssamgöngur ekki hefðbundið hægri-vinstri mál

Umræða um borgarlínu hefur oft fengið á sig pólitískan blæ og hafa skoðanir verið nokkuð pólaríserandi. Spurður hvort hann sjái fyrir sér að verkefnið muni litast af pólitík og helstu pólitísku leikendum segir Árni að auðvitað sé það pólitísk ákvörðun þeirra sem stjórni sem ráði för, en að þegar komi að almenningssamgöngum og hvort eigi að bæta þær sé ekki um hefðbundna hægri-vinstri afstöðu að ræða. Þá segir hann slæmt ef umræður um einstaka persónur yfirskyggi efnisatriði í umræðunni. Nefnir hann að í London hafi fyrir ólympíuleikana árið 2012 verið farið í mikið átak í samgöngumálum undir stjórn borgarstjórans Boris Johnsons, sem er nú forsætisráðherra fyrir íhaldsmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert