Tilslakanir frá og með mánudegi

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta eru varfærin skref sem eru í samræmi við þá staðreynd að okkur gengur mjög vel hérna innanlands en líka þá staðreynd að faraldurinn er á mikilli siglingu alls staðar í kring um okkur,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um tilslakanir á sóttvarnaaðgerðum sem kynntar voru rétt í þessu.

Hún segir fulla ástæðu til að slaka á sóttvarnaraðgerðum núna fyrr heldur en áætlað var. Breytingarnar taka gildi á mánudaginn 8. febrúar og mun ný reglugerð gilda í þrjár vikur. Til stóð að núgildandi reglugerð myndi gilda til 17. febrúar.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði heilbrigðisráðherra minnisblaði með tillögum sínum að breyttum sóttvarnaráðstöfunum seint í gærkvöldi og voru þær samþykktar á ríkisstjórnarfundi rétt í þessu. Fallist var á allar tillögur sóttvarnalæknis.

Krár og barir mega opna

Um er að ræða eftirfarandi breytingar á reglugerð um samkomutakmarkanir innanlands:

Fjöldatakmörk gesta í sviðslistum verða aukin úr 100 í 150 manns.

Trú- og lífsskoðunarfélögum verður heimilt að halda athafnir, þar með taldar útfarir, með 150 manns að hámarki.

Hámarksfjöldi viðskiptavina í verslunum verður 150 manns með hliðsjón af fermetrafjölda og sama gildir um gesti á söfnum.

Heilsu- og líkamsræktarstöðvar mega opna búningsaðstöðu að nýju og æfingar í tækjasal verða heimilaðar að því gefnu að ekki séu fleiri en 20 manns í hverju rými. Hámarksfjöldi verður allt að 50% af leyfilegum fjölda líkamsræktarstöðvanna. Áfram þarf að skrá þátttöku fyrirfram.

Heimilt verður að opna að nýju skemmtistaði, krár, spilasali og spilakassa að uppfylltum skilyrðum. Veitingastaðir með áfengisveitingar  skulu ekki hafa opið lengur en til kl. 22 á kvöldin. Sama gildir um spilakassa og spilasali. Veitingar skulu afgreiddar gestum í sæti.

Reglur um 2 metra nálægðarmörk og grímuskyldu verða óbreyttar. 

Ísland á gulu 

Í minnisblaði Þórófls til Svandísar leggur hann til að viðvörunar litakóði vegna Covid-19 á Íslandi verið gulur. 

„Á sama tíma legg ég til að viðvörunar litakóða vegna aðgerða innanalands verði breytt úr appelsínugulum í gulan,“ segir í minnisblaði Þórólfs. 

Appelsínugulur litakóði stendur fyrir „aukna hættu“ en gulur litakóði stendur fyrir „vertu á verði“.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert