Útbreidd bólusetning forsenda mikilla tilslakana

Í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis segir að hann telji réttlætanlegt að að „slaka á nokkrum takmörkunum innanlands fyrr en núverandi reglugerð gerir ráð fyrir.“ 

Þá segir í minnisblaðinu að rétt sé að fara mjög varlega í tilslakanir þangað til að meiri útbreiðsla hefur orðið á bólusetningum við Covid-19. 

Ný reglugerð um sóttvarnaráðstafanir mun taka gildi á mánudaginn 8. febrúar og mun gilda í þrjár vikur, til 1. mars. 

Fallist var á allar tillögur Þórólfs af hálfu heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin styður heilbrigðisráðherra í þeirri ákvörðun.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áfram verða almennar fjöldatakmarkanir miðaðar við 20 manns og nándarreglan við tvo metra. Við þessu eru ákveðnar undantekningar. Þá eru börn fædd árið 2005 og síðar undanþegin fjöldatakmörkunum.

Opnun sund- og baðstaða verður óbreytt, þ.e. fyrir 50% af leyfilegum hámarksfjölda gesta. Börn fædd árið 2005 og síðar teljast ekki með. 

Líkamsræktum sett ströng skilyrði

Líkamsræktarstöðvar mega opna með eftirfarandi skilyrðum:

Að opið verði fyrir 50% af leyfilegum hámarksfjölda gesta. 

Opna má fyrir æfingar í tækjasal, en sótthreinsa þarf tæki á milli notenda. Sótthreinsun búnaðar verður á ábyrgð rekstraraðila. Tækjasölum verður skipt í 20 manna hólf, gæta skal að nálægðarreglu og loftræsting skal vera góð. 

Tryggja þarf að allir sótthreinsi hendur og beri grímur við komu í hús og þar til æfing hefst. 

Sótthreinsa þarf hendur eftir æfingu áður en búnaður er sótthreinsaður. Eftir það sótthreinsi allir sín tæki. Fólk þarf einnig að sótthreinsa hendur við útgöngu úr húsi.

Iðkendur í líkamsrækt þurfa að vera fyrirfram skráðir, svo að skrá skal vera til yfir hver var hvar. Þetta er gert til að auðvelda smitrakningu. 

Búnings- og sturtuaðstaða verður opnuð. Hver tími í má vera að hámarki 60 mínútur svo að hámarksviðvera í húsi verði aldrei meiri en 90 mínútur.

Tímar mega ekki liggja saman svo að hópar mætist ekki í dyrunum eða öðru rými hússins. 

Í sameiginlegum rýmum skal tryggja tveggja metra nálægðarreglu og þegar því verður ekki við komið skal andlitsgríma notuð.

Fleiri í leikhúsum og útförum

Einstaka undanþágur eru gerðar á 20 samkomutakmörkunum, þar sem hámarksfjöldi er 150 manns:

Athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga þ.á.m útfarir mega gestir vera að hámarki 150; tveggja metra nándarregla verði tryggð sem og gestum skylt að nota grímu. Hámarksfjöldi í erfidrykkjum verði 20 manns.

Verslanir og söfn megi taka á móti 5 einstaklinum á hverja 10 fermetra, að hámarki 150 manns. Í verslunum mega 20 starfsmenn mega vera í sama rými og viðskiptavinir. 

Skemmtistaðir og krár opna 

Skemmtistaðir, krár, spilasalir, spilakassar og veitingastaðir megi vera opnir til kl. 22 með 20 manna hámarki í rými og aðeins afgreitt í sæti. Ekki verður heimilt að hleypa nýjum viðskiptavinum inn eftir kl. 21. Veitingastöðum verður heimilt að selja mat úr húsi til kl. 23:00. Gætt skuli að tveggja metra nálægðarmörkum og skylt að hafa grímur þar sem að því verður ekki við komið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert