Var fegin að hafa skilið við manninn

Freyja Egilsdóttir Mogensen.
Freyja Egilsdóttir Mogensen. Ljósmynd/Aðsend

Freyja Egilsdóttir Mogensen var hamingjusöm og spennt fyrir framtíðinni, allt þar til ógæfan dundi yfir. 

Náin vinkona hennar, Camilla Levisen, greinir frá þessu í samtali við Ekstra Bladet. Þær voru saman í námi og voru í miklum samskiptum.

„Ég talaði við hana síðasta fimmtudag á messenger og þá virtist hún algjörlega hún sjálf. Þannig að hún hafði ekki hugmynd um hvað var í vændum,“ sagði hún.

Vinkonur Freyju studdu hana þegar hún ákvað að fara frá eiginmanni sínum, sem síðar átti eftir að játa að hafa myrt hana. Hún sagði við þær að hún væri bæði ánægð og fegin að hafa tekið þetta skref. Freyju fannst engu að síður erfitt hversu lítinn skilning hann sýndi því að hún vildi halda fjarlægð frá honum en þau hættu saman seint á síðasta sumri.

Levisen hafði ekkert heyrt um að annar kærasti hafi verið inni í myndinni. „Hún naut þess bara að vera hún sjálf og með börnunum sínum,“ sagði vinkonan sem vissi að maðurinn hafði verið dæmdur fyrir að myrða aðra konu. Freyja sagði vinkonum sínum frá því eftir að þau hættu saman. 

Hrædd um að hann myndi skaða sjálfan sig 

Spurð hvort henni hafi fundist Freyja vera hrædd við hann sagði hún: „Hún var hrædd um hvað hann gæti gert sjálfum sér ef hún færi frá honum. En hún virtist aldrei vera hrædd um að hann myndi meiða hana,“ sagði vinkonan við Ekstra Bladet og bætti við að þau hefðu ekki rifist um forræði yfir börnunum. Gott samkomulag hefði verið um það.

Levisen segist strax hafa fengið slæma tilfinningu þegar hún frétti af því að Freyja væri týnd og grunað strax að maðurinn hennar fyrrverandi hefði átt hlut að máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert