Trausti Hafliðason, ritstjóri Viðskiptablaðsins, og Myllusetur ehf., útgefandi sama blað, voru í dag sýknaðir í meiðyrðamáli sem lögmaðurinn Lúðvík Bergvinsson höfðaði vegna ummæla í nafnlausa skoðunarpistlinum Óðni í blaðinu í apríl í fyrra.
Um þrjú ummæli var að ræða, en í pistlinum var fjallað um störf Lúðvíks sem óháður kunnáttumaður fyrir Samkeppniseftirlitið vegna sáttar sem N1 og Festi gerðu við eftirlitið þegar félögin sameinuðust. Var kostnaður af störfum Lúðvíks þar umfjöllunarefni, en hann hafði fengið um 33 milljónir fyrir störf sín og einnig var þar fjallað um tengsl hans við aðstoðarforstjóra eftirlitsins.
Ummælin þrjú eru eftirfarandi:
A: „Við blasir að efasemdirnar um Lúðvík voru ekki minni, sérstaklega vegna vináttunnar við aðstoðarforstjórann. Því jafnvel þó svo hann hafi þar hvergi komið nærri að nokkru leyti, þá leit það ekki þannig út og burtskýringin kom ekki fyrr en eftir að efasemdirnar höfðu komið fram á opinberum vettvangi. Sem sagt um seinan. Fyrir þá vini báða, Lúðvík og Ásgeir, Samkeppniseftirlitið og góða stjórnsýslu.“
B: „Þessar fréttir af Samkeppniseftirlitinu og óheyrilegum kostnaði við eftirlit með samruna eru án efa tilefni í einn safaríkan Kveiks-þátt. Óðinn hlakkar raunar til að sjá Helga Seljan rannsaka þessa hliðstæðu. Hann getur varla látið svona tækifæri fram hjá sér fara. Þeim virðist svipa saman hjörtunum, í Namibíu og Borgartúni.“
C: „Öll skynsemis- og réttlætisrök virðast hníga að því að Festi kæri kunnáttumanninn fyrir tilhæfulausa reikninga.“
Taldi Lúðvík að ummælin væru dæmd dauð og ómerk og að sér yrðu dæmdar 3 milljónir í miskabætur, en hann taldi umfjöllunina meiðandi og ranga.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að sýknað er um B-lið þar sem ekki þyki sýnt að þau ummæli beinist að Lúðvík sem slíkum, þrátt fyrir samhengið sem þau eru sett fram í.
Varðandi A- og C-lið segir dómurinn að fallist verður á að þau feli í sér gildisdóma og séu sett fram sem skoðun og huglægt mat, eða upplifun á málefni. Ekki sé um staðhæfingar um staðreyndir að ræða. Þá er bent á að umfjöllunin tengist málefni sem varði almenning, þ.e. starfsemi eftirlitsstofnana og kostnað við eftirlit og framkvæmd þess. Það sé hluti af sjálfsagðri og hefðbundinni þjóðfélagsumræðu. Jafnframt hafi fjölmiðlar, í ljósi stöðu sinnar við að miðla upplýsingum um málefni sem varði almenning, ríkara svigrúm til að gera grein fyrir málum sem eiga við almenning og því þurfi ríkar ástæður til að skerða það frelsi.
Telur dómurinn því ekki að ummælin hafi falið í sér ærumeiðandi ummæli í skilningi laga og er eru Trausti og Myllusetur sýknuð af öllum kröfum Lúðvíks. Er honum jafnframt gert að greiða 1,5 milljón í málskostnað vegna málsins.