Veðurspár gera ráð fyrir suðaustan- og austanátt um landið og hægum vindi víðast hvar. Él sunnan- og austanlands, en víða bjartviðri á Norðvestur- og Vesturlandi. Hiti í kringum frostmark en frost 0 til 9 stig norðan og austan til.
Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að næstu dagar verða keimlíkir síðustu rúmlega þremur vikum en veður verði þó heldur mildara en að undanförnu.
„Staða hæða og lægða hefur verið nánast læst að undanförnu, en sem þýðir að stórar og miklar hæðir sitja sem fastast og lægðirnar, sem oft ýta við þeim og ryðjast í kjölfar þeirra, hafa ekki haggað hæðunum. Á meðan liggur litla Ísland í fremur aðgerðalitlu veðri,“ segir í hugleiðingunum.
Þar segir enn fremur að farið sé að sjást í breytingar en um miðja næstu viku nálgist lægðir landið með úrkomubakka og einhverjum hlýindum.