Bóluefni AstraZeneca komið til landsins

Bóluefni AstraZeneca.
Bóluefni AstraZeneca. AFP

Bóluefni lyfjafyrirtækisins AstraZeneca kom til landsins nú undir kvöld. Í þessari fyrstu sendingu frá AstraZeneca eru 1.200 skammtar og duga þeir því fyrir 600 manns.

Von er á alls 14 þúsund skömmtum í febrúar af þeim 230 þúsund skömmtum sem samningar Íslands og AstraZeneca gera ráð fyrir. Þá munu alls 74 þúsund skammtar koma fyrir mánaðamótin mars/apríl.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir. Ljósmynd/Lögreglan

Skammtarnir ekki notaðir strax

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að ekki sé útlit fyrir að bóluefnaskammtarnir 1.200 verði notaðir þegar í stað.

„Það er vegna þess að við erum bara ekki búin að fá skammtana,“ segir Ragnheiður spurð um ástæðu þess.

„Það er sóttvarnalæknir sem ákveður slíkt og þegar bóluefnin eru komin í okkar hendur þá er þeim komið í notkun strax. Sóttvarnalæknir ákveður auðvitað, samkvæmt reglugerð, hvernig bóluefnum er dreift og hann verður því að svara fyrir það. Það getur verið að það sé verið að horfa til þess að safna meira magni bóluefnis saman og nýta þannig betur tímann við þá umfangsmiklu starfsemi sem bólusetningin er.“

Starfsfólk hjúkrunarheimila og í heimahjúkrun bólusett

Ragnheiður segist gera ráð fyrir að þeir 1.200 skammtar sem nú eru komnir til landsins muni nýtast til að bólusetja fólk í forgangshópi 2, samkvæmt reglugerð sóttvarnalæknis.

Það þýðir að starfsfólk hjúkrunarheimila og í heimahjúkrun verði að öllum líkindum í hópi þeirra 600 sem verða bólusettir með þessum fyrstu skömmtum frá AstraZeneca. 

Áður hefur verið greint frá því að fólk 65 ára og eldra muni ekki vera bólusett með bóluefni AstraZeneca hér á landi og skipar Ísland sér í hóp með öðrum Evrópuríkjum sem ákveðið hafa slíkt hið sama.

Bóluefni AstraZeneca við komuna til höfuðstöðva Distica í Hörgártúni. Distica …
Bóluefni AstraZeneca við komuna til höfuðstöðva Distica í Hörgártúni. Distica er dreifingaraðili bóluefna við kórónuveirunni hér á landi. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert