Einar Hansberg Árnason er nú kominn tæp 12% í átt að nýju heimsmeti í réttstöðulyftu. Hann ætlar að lyfta 60 kg í sólarhring með það að markmiði að lyfta samanlagt 521 tonni og slá þar með heimsmet. Hægt er að heita á Einar og renna öll áheit til velferðar barna.
Hægt er að sjá streymi frá heimsmetstilraun Einars hér að neðan.
„Hann er bara ótrúlega góður,“ segir Heimir Árnason, bróðir Einars, við mbl.is. „Hann var að taka 1.000. lyftuna bara rétt í þessu.
Einar byrjaði á hádegi og er því nú búinn að lyfta í tæpa fjóra tíma. Hann lyftir um 10-11 sinnum á mínútu í 11 mínútur og tekur þá fjögurra mínútna pásu að sögn Heimis.
„Uppleggið er að gera þetta allan tímann en á hverri klukkustund tekur hann einu sinni lengri pásu í þá 12-14 mínútur.“
Einar hefur áður vakið athygli fyrir hetjuleg afrek sín í þágu góðgerðarmála. Meðal annars reri, skíðaði og hjólaði Einar eitt sinn 13 þúsund metra af hverju, eða einn metra fyrir hvert barn sem verður fyrir ofbeldi á Íslandi.
Hann gekk einnig 100 kílómetra um árið fyrir Krabbameinssamtök Hvammstanga og árið 2018 reri hann 500 kílómetra til styrktar Kristínu Sif, útvarpskonu á K100, sem þá hafði nýlega misst eiginmann sinn.
„Það sem hann kannski býr vel að er að hafa gert alls kyns svona áður,“ segir Heimir spurður um hvernig Einar hafi undirbúið sig undir átökin.
„Hann er búinn að vera undir stífri handleiðslu Unnars Helgasonar þjálfara sem hefur verið að búa hann undir þetta. Þá hefur hann verið að lyfta réttstöðulyftur í kannski 3-4 klukkutíma en það er ekkert í líkingu við það sem hann er að fara að gera núna.“
Heimir er spurður að því hvernig koma megi fólki í skilning um hve erfitt í raun og veru sé að lyfta réttstöðulyftu nær sleitulaust í sólarhring. Hann segist ekki rétti maðurinn til þess að svara þeirri erfiðu spurningu og réttir því Sveinbirni Sveinbjörnssyni, æfingafélaga Einars, tólið.
„Það er rosalega erfitt að bera þetta saman við nokkuð annað,“ segir Sveinbjörn. „Það er mikið álag á mjaðmirnar allan tímann, bakið, fæturna, brjóstkassann, magavöðva og háls og raunar bara allan líkamann. Þú spyrð hvort þetta sé eins og að fara tíu sinnum á Esjuna í röð, það væri auðvitað þrælerfitt, en það er ekki þetta álag á allan líkamann í einu.“
„Svo er kannski mikilvægast af öllu að halda hausnum skýrum. Þegar hann hefur lyft í einhvern tíma þá fer hann að finna fyrir alls konar sársauka til dæmis í iljum og framhandleggjum og þá fer líkaminn að senda skýr skilaboð um að hætta og þá er eins gott að hann framkvæmi allar lyftur rétt til þess að bægja þessum sársauka frá sem lengst.“