Enn hefur ekkert heyrst frá John Snorra

Í hlíðum K2. Muhammad Ali Sa­dp­ara og John Snorri Sigurjónsson.
Í hlíðum K2. Muhammad Ali Sa­dp­ara og John Snorri Sigurjónsson.

Enn hefur ekkert heyrst frá John Snorra Sigurjónssyni fjallgöngumanni og samferðamönnum hans sem lögðu af stað á topp fjallsins K2 síðastliðið fimmtudagskvöld. Utanríkisráðherra Pakistans sagði síðdegis í dag að allt yrði reynt til þess að bjarga mönnunum, en K2 er á landamærum Kína og Pakistans. 

Síðast sást til Johns Snorra og samferðamanna hans klukkan fimm í gærmorgun að íslenskum tíma. Þá hafði einn samferðamannanna snúið við í þriðju búðir. Þá voru John Snorri og félagar í 8.211 metra hæð en K2 er 8.611 metrar að hæð. 

Þyrlur pakistanska hersins hófu leit á K2 í morgun en leit þeirra bar ekki árangur. 

Kári G. Schram kvikmyndagerðarmaður, sem fylgdi John Snorra áleiðis þegar hann kleif K2 árið 2017, sagði í samtali við mbl.is í dag að hann vonaðist til þess að John Snorri hefði leitað skjóls í fjórðu og efstu búðum fjallsins.

Nýjasta færslan frá því snemma í morgun

Búðirnar eru staðsettar ofar en þyrlurnar komast og því er möguleiki að John Snorri og félagar hans hafi leitað skjóls þar án þess að leitarmenn í þyrlunum hafi komið auga á þá. 

Með John Snorra í för eru Muhammad Ali Sa­dp­ara og Juan Pablo Mohr frá Síle en Sajid Ali Sadp­ara, son­ur Alis, varð að snúa við klukkan þrjú í gær­morg­un þar sem súr­efniskút­ur hans virkaði ekki rétt. 

Nýjustu fréttir sem færðar hafa verið á facebooksíðu Johns Snorra eru þær að ekkert hafi heyrst frá honum. Sú færsla birtist snemma í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert