Enn hefur ekkert heyrst frá John Snorra Sigurjónssyni fjallgöngumanni og samferðamönnum hans sem lögðu af stað á topp fjallsins K2 síðastliðið fimmtudagskvöld. Utanríkisráðherra Pakistans sagði síðdegis í dag að allt yrði reynt til þess að bjarga mönnunum, en K2 er á landamærum Kína og Pakistans.
Síðast sást til Johns Snorra og samferðamanna hans klukkan fimm í gærmorgun að íslenskum tíma. Þá hafði einn samferðamannanna snúið við í þriðju búðir. Þá voru John Snorri og félagar í 8.211 metra hæð en K2 er 8.611 metrar að hæð.
Þyrlur pakistanska hersins hófu leit á K2 í morgun en leit þeirra bar ekki árangur.
Kári G. Schram kvikmyndagerðarmaður, sem fylgdi John Snorra áleiðis þegar hann kleif K2 árið 2017, sagði í samtali við mbl.is í dag að hann vonaðist til þess að John Snorri hefði leitað skjóls í fjórðu og efstu búðum fjallsins.
Búðirnar eru staðsettar ofar en þyrlurnar komast og því er möguleiki að John Snorri og félagar hans hafi leitað skjóls þar án þess að leitarmenn í þyrlunum hafi komið auga á þá.
Með John Snorra í för eru Muhammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr frá Síle en Sajid Ali Sadpara, sonur Alis, varð að snúa við klukkan þrjú í gærmorgun þar sem súrefniskútur hans virkaði ekki rétt.
Nýjustu fréttir sem færðar hafa verið á facebooksíðu Johns Snorra eru þær að ekkert hafi heyrst frá honum. Sú færsla birtist snemma í morgun.
Dear friends We regret to inform that we have not received any new news from John, Ali, and Pablo after the night. The...
Posted by John Snorri on Föstudagur, 5. febrúar 2021