Gætu notað mörg íþróttamannvirki til að bólusetja

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir. Ljósmynd/Lögreglan

Verið er að koma upp svokallaðri fjöldabólusetningarstöð í Laugardalshöll þar sem hægt verður að taka við mun stærri hópi fólks en áður hefur verið hægt. Rúv greindi fyrst frá.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir við mbl.is að með núverandi fyrirkomulagi á Suðurlandsbraut sé hægt að taka á móti um 100 manns hverja klukkustund en í Laugardalshöll verði hægt að taka á móti um 400-500 manns.

„Við ætlum að prófa núna á miðvikudaginn. Þá tökum við svona general-prufu,“ segir Ragnheiður.

Nýtt og betra fyrirkomulag

Ragnheiður segir meginástæðu tilfærslu bólusetningarstöðvarinnar vera bílastæðaskortur við Suðurlandsbraut. Einnig er horft til þess að prófa nýtt fyrirkomulag við bólusetninguna sjálfa þegar komið er í Laugardalshöll.

„Það eru aðallega bílastæðin. Það eru aðallega þau sem hafa verið okkur til trafala á Suðurlandsbrautinni. Við Laugardalshöll og þar í kring eru þó eitthvað í kringum 1.400 bílastæði,“ segir Ragnheiður.

„Svo ætlum við að prófa að skipta bólusetningunni niður á mismunandi svæði. Þannig yrði bólusett á einum stað og síðan færi fólk í annað rými þar sem það biði í þessar 15 mínútur sem þarf til að tryggja að ekki verði alvarlegar aukaverkanir.

Við höfum gert þetta á sama staðnum á Suðurlandsbraut, það er að segja að fólk er bólusett og svo biður það á sínum stað í þessar 15 mínútur. Það verður gaman að prófa þetta nýja fyrirkomulag og sjá hvort það reynist betur.“

Sviðsmyndin enn stærri ef af Pfizer-samningi verður

Spurð hvort tilfærsla bólusetninga úr gamla Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut og í Laugardalshöllina sé hluti af undirbúningsvinnu vegna hárra orðróma um samning við lyfjaframleiðandann Pfizer, segir Ragnheiður svo ekki vera. Umræddir orðrómar eru á þá leið að samningar séu í sjónmáli milli stjórnvalda og Pfizer um hjarðónæmistilraunir hér á landi á næstunni.

„Nei, þetta hefur alltaf verið á okkar plönum að skala starfsemina upp með þessum hætti. Við höfum unnið hörðum höndum að sjá fyrir okkur og undirbúa allar mögulegu sviðsmyndir í þessum málum og þetta er einungis ein þeirra sviðsmynda.

Ef af þessum samningum verður þá liggja fyrir áætlanir um að skala enn frekar upp bólusetningu og nota þannig fleiri íþróttamannvirki til þess.“

Hvaða íþróttamannvirki eru það?

„Það eru þá Ásvellir, Fífan og Egilshöllin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert