Engar fregnir hafa borist af fjallgöngumanninum John Snorra Sigurjónssyni og félögum hans í nótt. Stefnt er að því að þyrlur pakistanska hersins hefji leit á K2 fljótlega.
Með John Snorra í för eru Muhammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr frá Síle en Sajid Ali Sadpara, sonur Alis, varð að snúa við í búðir þrjú í gærmorgun þar sem súrefniskútur hans virkaði ekki rétt. Þegar hann sneri við voru John Snorri og félagar í síðustu hindruninni upp á tindinn, ísveggnum Bottleneck.
Samkvæmt upplýsingum frá fjölskyldu Johns Snorra sást síðast til þeirra klukkan 5 í gærmorgun að íslenskum tíma er Said sneri við í búðir 3. Þegar Said sneri við voru þeir í 8.211 metra hæð en K2 er 8.611 metrar að hæð.
Að sögn fjölskyldunnar hefur hún fengið frábæran stuðning frá íslensku utanríkisþjónustunni sem og norska sendiráðinu í Pakistan og ræðismanni Íslands í Islamabad. Fjarskiptadeild lögreglunnar vinnur að því að fá heimild til þess að skoða gögn úr gervihnattasímum Johns Snorra og Juans Pablos en ekki er hægt að fá slíkar upplýsingar nema lögreglan óski eftir þeim.
Þyrlur pakistanska hersins eru farnar frá Skardu áleiðis að K2 og unnið er að því að fá heimild til þess að fljúga stærri flugvélum á svæðið til þess að taka þátt í leitinni. Feðgarnir Ali og Sajid eru frá Pakistan.
Í nýlegri twitterfærslu fjallgöngumannsins Alans Arnettes kemur fram að Sajid Ali Sadpara sé á leið úr búðum þrjú með aðstoð Pemba Sherpa. Pakistanski herinn mun síðan flytja sjerpa ofar í fjallið til þess að leita að þremenningunum. Pemba var með leiðangri Noel Hanna á K2 en varð eftir í búðum 1.
Ekki er vitað hversu hátt þyrlur hersins geta farið vegna háloftavinda. Talið er að þær fari ekki ofar en í sjö þúsund metra hæð, sem er á milli búða tvö og þrjú á svæði sem nefnist svarti píramídinn. Arnette segist ekki eiga von á frekari fréttum af leitinni fyrr en síðar í dag, jafnvel kvöld. Ágætt veður er á K2 núna og hefur verið frá því í gær en spáin gerir ráð fyrir að það fari að versna síðar í dag að sögn fjölskyldu Johns Snorra.
Feðgarnir Muhammad Ali Sadpara og Sajid Ali eru báðir þrautreyndir fjallgöngumenn en Ali hefur meðal annars klifið K4, K5, Nanga Parbat fimm sinnum, þar af fyrstur til þess að vetrarlagi, Broad Peak sem og K2 árið 2018. Hann kleif Lhotse, Makalu og Manaslu árið 2019. Sajid, sem er tvítugur að aldri, kleif K2 2019.
K2 er eins og áður sagði 8.611 metrar að hæð og er annað hæsta fjall heims, næst á eftir Mount Everest sem er 237 metrum hærra. John Snorri varð fyrstur Íslendinga til að klífa tindinn Lhotse í Himalajafjallgarðinum, sem er 8.516 metra hár og fjórða hæsta fjall heims.
John Snorri stóð fyrstur Íslendinga á tindi K2 hinn 28. júlí 2017 en fyrir ári varð hann frá að hverfa er hann reyndi við fjallið að vetri til. Það voru tíu nepalskir fjallgöngumenn sem náðu að verða fyrstir til þess þann 16. janúar sl.