Lögregla kölluð til vegna órólegs sjúklings

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til vegna sjúklings á Landspítalanum sem var órólegur, eins og það er orðað í dagbók lögreglu. Leystist málið með nærveru lögreglu.

Þá var brotist inn í verslun á Granda en ekki fást frekari upplýsingar um það að svo stöddu.

Lögregla hefur upptökur úr öryggismyndavél undir höndum sem sýna hvernig farið var inn um ólæstar dyr í fjölbýlishúsi, miðsvæðis í Reykjavík, og þar unnin eignaspjöll.

Tilkynnt var um þjófnað úr bifreið og var töluverðu stolið þaðan. Lögreglustöð 2 í Hafnarfirði rannsakar nú málið.

Lögreglustöð 3 í Kópavogi var svo tilkynnt um drukkinn farþega í leigubíl sem neitaði að borga fargjaldið. Leystist úr málinu eftir að lögregla kom á vettvang.

Slíkt hið sama var tilkynnt til lögreglustöðvar 4 í Grafarholti þegar farþegi í leigubíl neitaði að borga fargjaldið. Grunur var um að farþeginn hefði fyllt skott bílsins af þýfi og er málið til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert