Björgunarsveitir og sjúkraflutningamenn komu í dag konu til aðstoðar sem hafði slasast á fæti ofarlega í hlíðum Grímannsfells í Mosfellsdal.
Útkall barst björgunarsveitum skömmu eftir klukkan 13:30.
Davíð Már Björgvinsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að björgunaraðgerðir hafi gengið vel.
„Það voru ágætisaðstæður en það var bratt þarna upp. Sjúkraflutningamenn á sexhjóli komu fyrstir að konunni, þeir komust langleiðina á hjólunum en þurftu síðan að ganga rest. Á eftir þeim komu tveir hópar af björgunarsveitafólki og sjúkraflutningamönnum með búnað, meðal annars börur með hjólum undir til að koma henni niður,“ segir Davíð.
Konan var flutt á slysadeild með sjúkrabíl um klukkan þrjú. Hún mun vera slösuð á fæti.