Sýningar á Kardemommubænum hefjast aftur í Þjóðleikhúsinu um helgina. Alls eiga um 20 þúsund gestir miða og á næstu dögum og vikum munu þeir fá boð um nýja sýningardaga. Miðað við núverandi samkomutakmarkanir er gert ráð fyrir 100 fullorðnum í sóttvarnahólf og ljóst að dreifa þarf gestum á fleiri sýningar en seldar voru í upphafi.
Sérstakur þjónustuvefur, kardemommubaerinn.is, hefur verið settur í loftið til að einfalda miðaeigendum að tryggja sér nýja sýningardaga. Mikill áhugi fullorðinna gesta setur strik í reikninginn því gæta þarf meiri fjarlægðar á milli þeirra en barna, að því er fram kemur í tilkynningu frá Þjóðleikhúsinu.
Áætlanir leikhússins miða við að hægt verði að bjóða öllum hópnum upp á sýningar í síðasta lagi í september. Verði frekari tilslakanir á fjöldatakmörkunum eru líkur á því að hægt verði að bjóða öllum sem nú eiga miða að komast fyrr í leikhúsið.
Sýnt verður þétt, allt að 12 – 15 sýningar á mánuði. Verði frekari tilslakanir á næstunni er mögulegt að fjölga gestum í sal og þá er hugsanlegt að nýir sýningardagar verði settir í sölu fyrir vorið.
Allir miðaeigendur eiga von á tölvupósti með nýju bókunarnúmeri til að geta valið sér nýja sýningardaga, en póstarnir verða sendir út smám saman, og þannig komast þeir sem fyrst keyptu miða að fyrst og svo koll af kolli.