„Ég sendi þetta frá mér til að fólk lesi, og það vekur kannski einhverjar hugrenningar eða tengsl. Þetta er tekið saman á síðustu sex árum og nær því yfir nokkuð langan tíma. Ég er líka að taka til atriði frá því ég var ungur maður, jafnvel lítill drengur á sumum stöðum. Ég horfi aftur til bernskunnar, enda sækir slíkt endurlit á þegar árum fjölgar. Ég velti oft fyrir mér hvað ég hef verið að gera og hvernig stöðu ég hef verið í. Út frá því verða þessar hugleiðingar til,“ segir Pétur Önundur Andrésson sem nýlega sendi frá sér bókina Niðurinn frá ánni, en hún geymir ljóð og hugleiðingar hans um lífið og tilveruna, náttúruna, hversdaginn og fólkið í kringum hann.
Þegar Pétur er spurður að því hvort hann sakni æskudaganna, segist hann vissulega eiga ágætar æskuminningar.
„Ég sakna að vissu leyti félaganna sem ég átti að vinum hér áður, skólafélaga og annarra sem ég er búinn að týna.“
Pétur er enginn byrjandi í skáldskapnum, þetta er áttunda ljóðabókin sem hann sendir frá sér. Hann segist í gegnum tíðina hafa lesið mjög mikið af ljóðum og skáldskap eftir aðra og að það komi fram í því sem hann skrifi, sérstaklega í fyrsta kafla nýju bókarinnar.
„Ég kalla þann kafla Skáldin, því mér finnst ég vera undir áhrifum frá hinum og þessum skáldum. Ef menn þekkja til þessara skálda, þá geta þeir hinir sömu jafnvel séð hver er á ferðinni í hvaða ljóði.“
Þegar Pétur er spurður að því hvort einhver skáld séu í meira uppáhaldi hjá honum en önnur, segist hann hafa í gegnum tíðina verið hrifinn af Þuríði Guðmundsdóttur skáldkonu.
„Ljóðin hennar höfða mikið til mín, en svo eru það líka þessir gömlu, Einar Bragi og Stefán Hörður til dæmis. Mér finnst mög gefandi að lesa ljóð, en mér finnst ljóð ekki alveg njóta sannmælis í seinni tíð. Kannski vegna þess að það getur verið erfitt að lesa ljóð ef maður kann það ekki, það getur reynt á hugsunina og maður þarf að venjast því og helst alast upp við það. Á mínu æskuheimili var mikið lesið af ljóðum og ákveðin skáld voru í miklu uppáhaldi hjá pabba og mömmu. Til dæmis Davíð Stefánsson, en pabbi var líka mjög hrifinn af Stephani G. Stephanssyni og hélt honum mikið að mér. Mörg af hans ljóðum finnst mér vera mögnuð.“
Pétur er fæddur og uppalinn í Reykjavík en foreldrar hans voru Skagfirðingar, þau fæddust fyrir norðan og ólust þar upp.
„Fyrir vikið var ég þó nokkuð mikið fyrir norðan á yngri árum á bænum Varmalandi í Sæmundarhlíð og ég var einnig mikið á Króknum. Ég hef því sterkar taugar norður. Í nokkrum ljóða minna í bókinni horfi ég til þeirra slóða og forfeðra minna, til dæmis er ljóð um mömmu mína og líka um ömmu, Steinunni Stefánsdóttur, en hana þekkti ég ekki nema af því sem foreldrar mínir sögðu mér. Mér finnst mjög forvitnilegt að komast yfir eitthvað sem segir frá forfeðrum mínum. Ég verð mjög glaður ef ég rekst á bókarkafla eða annað þar sem sagt er frá þeim. Til dæmis hef ég rekist á frásagnir af föðurafa mínum, Pétri Andréssyni, sem átti heima í Stokkhólmi í Skagafirði. Mér finnst það virkilega gaman og mig langar að vita miklu meira, því maður er náttúrulega settur saman úr svo mörgum sem á undan komu.“
Pétur kemur í ljóðum sínum einnig inn á ýmislegt í samfélaginu sem honum finnst að betur mætti fara.
„Það er ekki hægt annað, skáld eru alltaf aðeins að reyna að benda á eitt og annað í tilverunni sem mætti kannski vera öðruvísi. Ég hef áhyggjur af börnunum, mér finnst þau hverfa of mikið að tækjum. Þó ævintýri sem þar er að finna geti vissulega verið góð, þá er hættulega þægilegt að afgreiða börn með því að opna fyrir sjónvarp eða síma og láta þau horfa á einhverja mynd eða spila tölvuleik. Það má vel vera að það sé allt í lagi, en ég held að hitt væri betra, ef samskiptin væru meiri, það mundi hjálpa þeim betur af stað út í lífið. Ég hef líka áhyggjur af þessum skelfilegu eiturlyfjum og öðru sem haldið er að börnum. Ég hef á tilfinningunni að ýmislegt fari fram í okkar samfélagi sem ætti alls ekki að gerast.“
Pétur segir að þó við mannfólkið skiptumst í ólíkar pólitískar fylkingar, þá finnist honum að það þurfi að vera meira umburðarlyndi á milli fylkinga og andstæðra sjónarmiða.
„Fólk þarf að gera sér grein fyrir að það eru ekki allir á sömu skoðun og til að þetta gangi svona nokkurn veginn hjá okkur í mannlegu samfélagi, þá þurfum við að komast að einhverju samkomulagi,“ segir Pétur sem kemur í ljóðum sínum inn á misskiptingu og fátækt í íslensku samfélagi. „Því miður hefur þetta alltaf verið og við erum vissulega að reyna að gera eitthvað í því og það hefur tekist að hluta til, en það er langt í land. Við erum ekki á réttum stað þegar allt þetta fólk þarf að sækja sér mat á hinum og þessum stöðvum. Það er lítillækkandi að þurfa að standa í röð til að fá eitthvað að borða handa sjálfum sér og börnum sínum. Þetta ætti miklu frekar að fara fram með einhverjum hætti í gegnum sameiginlegu sjóðina okkar.“
Þegar Pétur er spurður að því hvort efinn sæki á hann með hækkandi aldri, með vísan í eitt af ljóðum hans þar sem ævilangur efi kemur fyrir, segist hann vissulega velta fyrir sér eilífðarmálunum.
„Sumir eigi til trúarvissu sem hjálpar þeim í gegnum svo margt, því þeir trúa staðfastlega. Auðvitað vill maður eiga einhverja góða trú, en ég hef á tilfinningunni að maður búi þá mynd til sjálfur og reyni að láta hana ganga upp, sem gerist ekki alltaf. Það koma tímabil þar sem manni finnst alveg öruggt mál að ekkert sé æðra. Eflaust er sammannlegt að efast um eilífðarmálin, prestarnir segjast meira að segja margir eiga í eilífri baráttu við sjálfa sig. Ég öfunda fólk sem á heita og sanna trú í hjarta, ekki öfgar. Í því felst mjög mikill styrkur.“
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. febrúar.