Héraðsdómur Suðurlands hafnaði kröfu Landverndar og Héraðsnefndar Árnesinga bs. á hendur sýslumanninum á Suðurlandi. Landvernd og héraðsnefndin kröfðust þess að ákvörðun þinglýsingastjórans á Suðurlandi frá 22. október 2020, sem neitaði kröfu þeirra um leiðréttingu á þinglýsingabók og að afmá erfðaskiptayfirlýsingu frá 1975 úr þinglýsingabók, verði felld úr gildi. Úrskurðurinn var felldur 5. febrúar.
Málið snýst um eignarhald á lóð sumarbústaðarins Laxabakka við Sog. Íslenski bærinn ehf. keypti Laxabakka árið 2018. Lóðin er í landi Öndverðarness II sem Landvernd og Héraðsnefnd Árnesinga bs. fengu að gjöf.
Hannes Lárusson, myndlistarmaður og staðarhaldari Íslenska bæjarins, sagði að úrskurðurinn marki tímamót í málinu. „Ef menn sýna manndóm og heiðarleika þá ætti þessu máli að vera lokið hér með og vinnufriður að skapast í framhaldi af því til að bjarga þessu verðmæta húsi. Það var kannski bara jákvætt að þetta fór fyrir dóm og að þessi úrskurður fékkst,“ sagði Hannes. Hann telur að það verði langsótt að standa fyrir frekara málþófi. Slíkt málþóf gæti valdið miklum skaða á þjóðarverðmæti.
Núverandi eigendur jarðarinnar sögðu að lóðin hefði verið stofnuð úr landi jarðarinnar án heimildar landeigenda. Þeir bentu á að á lóðina sé þinglýst erfðaskiptayfirlýsingu með athugasemd um að eignarheimild vanti. Einnig kom fram í afsali þegar eignin var seld nauðungarsölu 2004 að lóðarréttindi séu óviss.
Kröfu Landverndar og Héraðsnefndarinnar um leiðréttingu var hafnað því vegna athugasemda á veðbókarvottorði eignarinnar „mætti grandlausum vera ljóst að vafi léki á lóðarréttindum eignarinnar“. Varðandi kröfu þeirra um að fá leiðréttingu þinglýst á eignina var ekki fallist né heldur að umrædd færsla væri efnislega röng.
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, sagði að þau þurfi að fara yfir úrskurðinn með lögfræðingi sínum. „Við höfum ekki tekið afstöðu til þess hvort við ætlum að taka þetta eitthvað lengra,“ sagði Auður. Eyþór H. Ólafsson, formaður Héraðsnefndar Árnesinga bs., sagði einnig að eftir sé að skoða úrskurðinn með lögmanni. „Það þurfti þessa niðurstöðu til að málið gæti klárast. Við erum opinber aðili og getum ekki annað en fengið þetta á hreint,“ sagði Eyþór.