Vöðvabólga reyndist vera heilablæðing

Mynd sem Kidda birti af sér með pistlinum á Hun.is …
Mynd sem Kidda birti af sér með pistlinum á Hun.is hér til vinstri ásamt mynd frá bráðamóttökunni.

Kidda Svarfdal, ritstjóri Hún.is, var greind með slæma vöðvabólgu í byrjun árs sem svo reyndist vera heilablæðing. Kidda þurfti að liggja inni á spítala í ellefu daga vegna heilablæðingar en Kidda er 39 ára gömul. 

Hún greinir sjálf frá atburðarásinni á Hún.is.

Kidda fékk fyrst yfirþyrmandi höfuðverk þann 12. janúar. Hún pantaði sér í kjölfarið tíma hjá lækni sem greindi hana með vöðvabólgu. Eftir það pantaði Kidda sér nudd.

Ég hélt að nuddið yrði mitt síðasta og svitnaði af sársauka í höndum nuddarans, sem hélt hann væri að eiga við venjulegt vöðvabólgutilfelli. Ég kom út úr herberginu og gat varla talað. Ég svitnaði köldum svita og maðurinn var að reyna að tala við mig og ég gat varla talað,“ skrifar Kidda. 

Eftir nuddið fór líðanin versnandi og leitaði hún á læknavaktina. Þar sagði annar læknir Kiddu að hún væri með vöðvabólgu og bætti aðeins í lyfjaskammtinn. Kvalir Kiddu minnkuðu ekki við þetta og vaknaði hún sárkvalin daginn eftir. Þá leitaði hún á bráðamóttökuna þar sem læknir sagði henni að ekkert væri hægt að gera. 

Þegar þarna var komið sögu var ég orðin nokkuð viss um að ég væri bara með svona lágan sársaukaþröskuld. Vöðvabólgan hlyti að líða hjá. Ég lá heima hjá mér þetta föstudagskvöld og líðanin lagaðist ekki neitt. Það kom þarna einhver smástund þar sem ég hélt að ég væri að lagast en svo versnaði þetta aftur. Við hjónin horfðum á mynd um kvöldið og vöktum frekar lengi og ég man eftir að hafa tekið seinustu Diclomax töfluna þann daginn um 3 um nóttina. Svo fór ég að sofa,“ skrifar Kidda og heldur áfram:

„Næsta sem ég man er að ég vakna á gólfinu fyrir neðan stigann heima hjá mér. Sársaukinn í höfðinu var óbærilegur. Ég staulast einhvernvegin á fætur og nudda á mér andlitið. Hendurnar á mér urðu blautar og einhvern veginn klístraðar og þegar ég lít á hendurnar eru þær allar í blóði. Gólfið þar sem ég lá líka. Ég er gjörsamlega máttvana og staulast inn á bað og næ mér í handklæði sem ég set á höfuðið á mér. Ég man eftir að sjá mig hálfafskræmda í framan af blóði og bólgu á enninu. Ég finn að ég get ekki lengur staðið svo ég fer inn í næsta herbergi við baðið og leggst þar og sofna. Ekki mjög gáfulegar gjörðir, ég veit það, en ég var bara alls ekki í lagi þessa nótt. Ég vakna aftur og hef einhvern veginn komist upp í herbergi þar sem Magnús svaf. Ég vakti hann og stend öll í blóði yfir honum. Honum bregður skiljanlega mikið og spyr mig hvað hafi gerst og ég man lítið eftir því sem eftir kom. Hann segir að ég hafi verið alveg rugluð og ekki getað mikið tjáð mig eða sagt hvað hefði gerst. Ég man það ekki ennþá.“

Það var blæðing í höfðinu á mér

Þá leitaði Kidda aftur á spítalann ásamt eiginmanni sínum, Magnúsi. Kidda segist muna lítið eftir þeirri ferð. 

Maðurinn sem skoðaði sneiðmyndirnar sá að eitthvað var óeðlilegt á myndunum og bað um að teknar yrðu aðrar myndir með svokölluðu skuggaefni. Þær myndir sýndu, svo ekki var um að villast að ég var með sprunginn æðagúl í höfðinu. Það var blæðing í höfðinu á mér. Ég fékk fréttirnar frá lækni og var auðvitað mjög brugðið við tíðindin. Maggi var ekki hjá mér og ég held ég hafi fengið svolítið kvíðakast þegar þarna var komið sögu. Ég átti helst ekki að standa upp og liggja fyrir, en það eina sem mig langaði að gera vara að slíta af mér leiðslurnar og snúrurnar og hlaupa út. Mér fannst ég vera að kafna, bókstaflega. Hvað gerist svo? Er ég að fara að deyja?“ skrifar Kidda.

Fimm klukkustundum síðar fór hún í aðgerð og eyddi svo næstu fimm dögum á gjörgæslu. Kidda ber starfsfólki gjörgæslunnar og almennrar deildar góða söguna. 

Ég útskrifaðist 26. janúar og fór heim. Heppin að vera á lífi og óendanlega þakklát fyrir að ekki fór verr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert