Ætla að njóta þess að búa á Hóli

Jarðareigendur. Birkir Þór Guðmundsson og Kristín Björg Albertsdóttir.
Jarðareigendur. Birkir Þór Guðmundsson og Kristín Björg Albertsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Við ætlum að njóta þess að eiga heima í þessum fallega firði, Önundarfirði. Við endurvekjum gamalt lögbýli þannig að það verði aftur að bújörð,“ segir Birkir Þór Guðmundsson sem ásamt konu sinni, Kristínu Björgu Albertsdóttur, hefur tilkynnt viðeigandi stjórnvöldum að þau áformi að taka eyðibýlið Hól á Hvilftarströnd aftur til ábúðar og landbúnaðarstarfsemi.

Hóll hefur verið að mestu í eyði frá því um aldamótin 1900 en þó var búskapur þar í nokkur ár á fjórða áratugnum. Þar eru engin hús eftir.

Nýta landsins gæði

Birkir og Kristín keyptu jörðina fyrir nokkrum árum.

Birkir er Önfirðingur, fæddur og alinn upp á Ingjaldssandi, gerðist bóndi þar en flutti í burtu upp úr 1990. Bæði starfa þau Kristín sem framkvæmdastjórar. „Málin æxluðust þannig að við Kristín fluttum vestur vegna starfa árið 2016. Við keyptum þessa jörð 2019 og ætlum að byggja okkur hús þar og nýta landsins gæði,“ segir Birkir.

Afar sjaldgæft er að gömul húslaus eyðibýli séu endurvakin sem lögbýli. Frekar að byggð séu sumarhús á slíkum jörðum og ekki haft fyrir því að fá lögbýlisréttindi á ný. Það hefur tilfinningalegt gildi hjá Birki og Kristínu og geta skráð sig sem bændur og bendir Birkir á að fallegra sé að fá bréf með slíku starfsheiti.

Markmið þeirra er að koma upp heimili þar sem þau geta stundað atvinnu að heiman með sjálfbærni, heilsu og mannrækt að leiðarljósi. Lögð er áhersla á að íbúar og gestir samfélagsins geti komið til seturs, notið veru sem byggir á grunni jógafræðanna.

Önundarfjörður. Séð heim að Hóli á Hvilftarströnd. Engin hús og …
Önundarfjörður. Séð heim að Hóli á Hvilftarströnd. Engin hús og lítið undirlendi. Gamli reykháfurinn sést í fjörunni. Ljósmynd/Aðsend

Mikilvægur liður í þessu er heimarafstöð við Hólsá til að býlið geti verið sjálfu sér nægt um orku. Þá segir Birkir að lögð sé áhersla á að við byggingu mannvirkja verði sem minnst rask og öll mannvirki geti talist afturkræf.

Áform eru um matjurtarækt og Birkir telur að nokkrar kindur geti vel samrýmst markmiðum þeirra um sjálfbæra búsetu í sveitinni.

Reykháfurinn fær að standa

Þau hafa látið skrá fornleifar á jörðinni. Birkir segir að þar sé heildstæð saga búsetu. „Okkur þykir vænt um þessa gömlu minjar og ætlum að varðveita þær enda lítum við á þær sem verðmæti jarðarinnar.

Þekktasta kennileitið á Hvilftarströnd er reykháfur frá árinu 1904. Hann reisti Hans Ellefsen útgerðarmaður eftir að hvalveiðistöð hans á Sólbakka við Flateyri brann árið 1901. Hafði hann hugmyndir um að endurreisa stöðina við sjávarsíðuna á Hóli, um tvo kílómetra frá Sólbakka, en ekki varð meira úr því.

Birkir segir að reykháfurinn sé farinn að láta mikið á sjá. Eigendur jarðarinnar og samfélagið allt hafi áhuga á að finna leiðir til að bjarga þessu kennileiti. Reykháfurinn blasir við frá veginum um Hvilftarströnd, frá Vestfjarðagöngum að Flateyri.

Gerir upp báta

Við sjávarsíðuna eru einnig gamlar sjóbúðir. Birkir hefur fengist við að gera upp gamla báta og er nú einn á verkstæðinu á Flateyri. Vonast hann til að geta komið sér upp aðstöðu fyrir súðbyrðingana sína.

Viðtalið birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. febrúar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert