Kári Friðriksson, leigubílsstjóri og tónlistarmaður, lenti í leiðinlegu atviki í október þegar gert var grín að honum í vinsælu hlaðvarpi tveggja grínista.
Sverrir Þór Sverrisson og Pétur Jóhann Sigfússon halda úti hlaðvarpinu Beint í bílinn þar sem keyrt er um og spjallað, en þeir kalla það „vaxandi brandarahorn“.
Ekki er þó öllum skemmt.
Í þætti nr. 21 keyrðu Sveppi og Pétur Jóhann niður Hverfisgötu og minntust þá á leigubílstjóra sem þeir höfðu séð einhverjum mínútum áður, og töluðu um vaxtalag hans á niðrandi máta.
„Ef þú horfir ofan á þennan leigubílstjóra er hann örugglega fermetri,“ segir Sveppi í hlaðvarpinu.
Pétur Jóhann tekur undir það.
„Hann er allur svona kringlóttur,“ bætir Sveppi þá við. „Ef þú myndir leggja hann niður væri hann eins og einhver selur.“
Kári Friðriksson leigubílstóri segir ummælunum hafa verið beint að sér og sakar hlaðvarpsfélagana um fitufordóma.
„Þetta eru tíu mínútur af gríni um það hvað ég er feitur,“ segir Kári við mbl.is. „Þetta er ákaflega ósmekklegt.“
Hann gefur lítið fyrir kímnigáfu tvíeykisins.
„Það eru bara lélegir grínarar sem leggjast svona lágt.“
Þá segist Kári vera sár yfir því að talað sé um hann á þennan hátt á opinberum vettvangi.
„Mér finnst þetta ómerkileg framkoma. Mér var sagt að þessir menn hafi báðir lent í einelti áður. Þeir hafa nú ekki lært mikið af því.“