Einar lyfti 528 tonnum og sló heimsmetið

Einar Hansberg Árnason er nú heimsmetshafi.
Einar Hansberg Árnason er nú heimsmetshafi. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Ein­ar Hans­berg Árna­son sló í dag heimsmet í réttstöðulyftu, en honum tókst að lyfta samtals rétt rúmlega 528 tonnum. Einar byrjaði á hádegi í gær, og lyfti því lóðum í rúman sólarhring.

„Það er blússandi hamingja, og mikill léttir,“ segir Einar við mbl.is aðspurður um líðan sína eftir þrekvirkið.

„En þakklæti er mér efst í huga.“

Snemma í morgun var tekin sú ákvörðun að létta stöngina úr 60 kílógrömmum í 45.

„Ég lenti bara á vegg,“ segir Einar. Erfitt hafi reynst að koma sér aftur í réttan takt eftir að stöngin léttist.

„Þetta var bara spurning um að vera þolinmóður, koma sér inn í þetta og fá tilfinningu fyrir nýrri þyngd. En við náðum því og þetta gekk upp að lokum.“

Aðspurður segir Einar að sér líði vel andlega, þótt líkaminn sé afar þreyttur.

Ein­ar, sem hefur áður vakið at­hygli fyr­ir hetju­leg af­rek sín í þágu góðgerðar­mála, segir þrekvirkið unnið til vitundarvakningar um mikilvægi góðra samskipta fullorðinna við börn. 

„Við verðum að virða það að börn hafa rödd og við skulum hlusta á þau,“ segir hann.

„Foreldrum gengur oft illa með það, og ég er þar alls ekki undanskilinn. Samskiptin eru oft á forsendum foreldranna, án þess að þau ætli sér eitthvað með því,“ segir Einar.

„Þetta var bara ákall til fólks að líta aðeins inn á við og skoða samskipti sín við börnin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert