Una María Óskarsdóttir, uppeldis-, menntunar- og lýðheilsufræðingur og varaþingmaður Miðflokksins, segir lykilatriði að foreldrar hefji sína uppeldisvinnu strax; kynni sér heppilegar uppeldisaðferðir og hafi þekkingu á hverju einasta þroskaskeiði barna sinna. Þá sé ekki síður mikilvægt að foreldrar séu samstíga í uppeldisaðferðum sínum; að móðirin segi ekki eitt og faðirinn annað. Að öðrum kosti geti barnið eða börnin fengið misvísandi skilaboð. „Það skiptir öllu máli að foreldrar hafi trú á færni sinni. Ef maður vill þá getur maður!“
Una María segir grunnþætti eins og svefn, næringu og líðan skipta miklu máli frá fyrstu tíð. Eins séu hvatning og hrós mjög mikilvæg, að því gefnu að það sé gert á réttum stöðum og af réttu tilefni. „Ef börnum er hrósað of oft er hætt við því að það missi marks,“ segir hún.
Una María hefur sannfæringu fyrir því að grunnaðferðir í barnauppeldi gefist alltaf vel. Á hitt beri þó að líta að börn séu mismunandi að gerð og fyrir vikið sé erfitt að alhæfa í þessu sambandi. Mikilvægast sé þó að hafa trú á verkefninu og láta ekki hugfallast þótt á móti blási.
„Hvernig vekurðu til dæmis syfjaðan ungling?“ spyr hún. „Skiparðu honum að drulla sér á fætur. Afsakaðu orðbragðið,“ segir hún sposk. „Eða ferðu með meiri skilningi að honum? Það getur verið erfitt að koma unglingi í skólann á morgnana og mín skoðun er sú að betra sé að nálgast hann á jákvæðninni og með hægðinni, höfða til dæmis til áhugamála hans. Heyrðu, er ekki æfing í dag? Þá kviknar gjarnan á perunni og unglingurinn fer fram úr.“
Arnar Ævarsson, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, landssamtaka foreldra, segir grundvallaratriði að skólakerfið kalli eftir nánara samtali við foreldra um stefnumótun, þarfir barna og þar fram eftir götunum, til að efla megi starfið á breiðum grunni og bæta líðan og árangur nemenda í námi. „Það eiga miklar mælingar sér stað í skólakerfinu og fyrir vikið mikið til af upplýsingum sem miðla má í auknum mæli til foreldra. Lengi hefur verið rætt um þessi mál en eigi að síður vantar enn þá upp á þetta samtal.“
Hann segir það þó aðeins misjafnt eftir skólum. Sumir skólar kalli foreldra meira að borðinu en aðrir og áberandi sé að þar líði börnunum betur, ekki síst drengjunum, og viðhorf foreldra til skólans sé að sama skapi betra. „Skortur á upplýsingum getur leitt til tortryggni af hálfu foreldra í garð skólans sem á móti fer í vörn, þar sem honum finnst að sér vegið og hefur fyrir vikið tilhneigingu til að draga úr samskiptum við foreldra í stað þess að efla þau enn frekar. Það er mjög óheppilegt enda skiptir máli að fá sem flest sjónarhorn á stöðuna sem er uppi hverju sinni. Starfið í skólunum er mjög metnaðarfullt og þetta mikilvæga samtal er algjört lykilatriði til að opna umræðuna. Öllum til hagsbóta. Það eykur einnig líkurnar á því að hægt verði að taka frumkvæði í stað þess að bregðast bara við vandmálum sem koma upp.“
Hann nefnir áherslur í forvörnum sem dæmi en þar hafi foreldrum verið boðið með í vegferðina. Eins hafi íþróttahreyfingin verið dugleg að nýta krafta foreldra iðkenda innan sinna vébanda. „Þeir sem vinna með börnum þurfa að vera meðvitaðir um að foreldrar hafa hlutverk. Þetta snýst um viðhorfsbreytingu. Við þurfum að brjóta niður veggi.“
Foreldrar eru fyrstu og mikilvægustu kennarar barna og hafa úrslitaáhrif á líðan þeirra og námsárangur,“ segir Ólafur Grétar Gunnarsson, fjölskyldu-og hjónaráðgjafi, sem lengi hefur velt fyrir sér vanda drengja í íslenska skólakerfinu. Hann leggur áherslu á að fara beint í grunninn til að freista þess að leysa vandann. „Foreldrar sem eru öruggir í sínu hlutverki og sækjast eftir sterkum tengslum við börnin sín verja meiri tíma með þeim og gera meira gagn. Það segir sig sjálft. Þetta er grunnurinn sem síðan má byggja ofan á.“
Hann vill sjá betri stuðning og meiri fræðslu fyrir foreldra og að faðir og móðir deili ábyrgðinni á uppeldinu jafnt. „Kærleiksrík fræðsla er ein besta leiðin til að vinna gegn óöryggi. Með fræðslu á meðgöngu væri verið að leggja áherslu á mikilvægi þess að foreldrar taki jafna uppeldis- og umönnunarábyrgð og stuðli þannig að betri heilsu og tilfinningalegu jafnvægi barna og foreldra. Vitað er að þótt bæði kynin geti verið óörugg og hafi mögulega ekki fengið fræðslu og aðstoð sem verndar geðheilsu þeirra og barnsins er móðirin að öllu jöfnu af lífeðlisfræðilegum og jafnvel félagslegum ástæðum betur til þess fallin að annast ungbarnið en faðirinn. Aðgerðaleysi stjórnvalda leiðir því oftar en ekki af sér að hún annast meira um barnið. Líta má á slíkt aðgerðaleysi sem viðhaldandi afl við hefðbundin kynhlutverk eldri kynslóða. Auk þess fær móðirin mun meiri stuðning hjá heilbrigðiskerfinu á meðgöngu en faðirinn, samanber mæðravernd en ekki foreldravernd.“
Nánar er fjallað um hlutverk foreldra við uppeldi og menntun barna sinna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Greinin er liður í úttekt blaðsins á vanda íslenskra drengja í skólakerfinu.