Icelandair ræður í nýjar flugmannsstöður

Icelandair vantar flugmenn til að fljúga nýjum Boeing MAX-þotum.
Icelandair vantar flugmenn til að fljúga nýjum Boeing MAX-þotum. mbl.is/Sigurður Bogi

Flugfélagið Icelandair hefur nýlega auglýst stöður flugstjóra innan fyrirtækisins, en ekki liggur fyrir hve margar stöður eru lausar.

„Verið er að auglýsa stöður flugstjóra samkvæmt kjarasamningi, og það er þá meðal starfandi flugstjóra,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi Icelandair við mbl.is og leggur áherslu á að ekki sé verið að ráða nýtt fólk inn í félagið.

Icelandair leitar að flugstjórum til að fljúga farþegaþotum, bæði af gerðinni Boeing 737 MAX og Boeing 757. Ekki liggur þó fyrir hvenær MAX-vélarnar verða teknar í notkun hjá félaginu, né hve margar þær verða.

Um 70 flugstjórar starfa hjá Icelandair í dag, og hafa fjórir þeirra fengið þjálfun til að fljúga Boeing MAX-vélum. MAX-vélarnar, sem flugfélagið hefur tryggt sér, verða sóttar til Spánar í næstu viku.

Vísir greindi fyrst frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert