Leit að John Snorra heldur áfram í dag

John Snorri glímdi einnig við K2 í fyrra.
John Snorri glímdi einnig við K2 í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Leit pakistanska hersins að fjallgöngumönnunum John Snorra Sigurjónssyni, Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr heldur áfram í dag. Til stendur að þyrlur hersins fari að fjallinu K2 í dag, en leit herþyrlu bar engan árangur á laugardag. 

Ekkert hefur spurst til þremenningana síðan klukkan fimm á föstudagsmorgun að íslenskum tíma þegar Said Sadpara, sonur Alis, sneri við í búðir þrjú þegar súrefniskútur hans hætti að virka sem skyldi. Said er nú kominn heilu og höldnu í grunnbúðir fjallsins. 

Þyrlur pakistanska hersins komust í gær í um sjö þúsund metra hæð, en þegar þremenningarnir sáust síðast voru þeir í 8.211 metra hæð við síðustu hindrun upp á tindinn, ísvegginn Bottleneck. 

Yfirvöld í Pakistan hafa heitið því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að finna John Snorra og félaga sem fyrst. Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hér á landi er í sambandi við fjölskyldu Johns Snorra auk yfirvalda í Pakistan. 

Fjallgöngumaðurinn Alan Arnette segir í færslu sinni að til standi að herþyrlur fari aftur að fjallinu í dag, en veðurskilyrði eiga þó að vera lítt skárri en þau voru í gær þegar mikill vindur var á svæðinu. Þá hafa pakistönsku göngumennirnir Imatiaz Hussain og Akbar Ali verið fluttir í búðir eitt til að veita aðstoð ef hægt verður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert