Kona í annarlegu ástandi á veitingahúsi í miðborginni var vistuð í fangageymslu lögreglu eftir að hún neitaði að greiða reikning sinn á veitingastað. Þegar lögregla kom á vettvang neitaði konan enn fremur að veita lögreglu upplýsingar um nafn og kennitölu.
91 mál var skráð í dagbók lögreglu í gærkvöldi og nótt. Hið minnsta 22 mál voru vegna hávaða frá samkvæmum.
Skömmu fyrir klukkan 19 var tilkynnt um líkamsárás, en maður varð ósáttur þegar annar maður tók myndir af konu hans. Ekki er getið um áverka.
Tilkynnt var um þjófnað í bílakjallara skömmu eftir klukkan 21. Var brotist inn í bifreið og meðal annars sjónauka og GPS-tæki stolið.
Skömmu eftir klukkan 23 voru afskipti höfð af veitingahúsi í miðbænum vegna brots á sóttvarnalögum, en gestir voru þá enn inni á staðnum sem loka átti klukkan 22 í samræmi við sóttvarnareglur.