Heimilt verður að opna skemmtistaði, krár, spilasali og spilakassa að uppfylltum skilyrðum á morgun en breytingar á sóttvarnaráðstöfunum vegna kórónuveirufaraldursins taka gildi á miðnætti. Almennar fjöldatakmarkanir verða áfram 20 manns en með rýmri undantekningum en hingað til.
Um varfærnar tilslakanir á reglugerð um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar er að ræða og gilda breytingarnar til 3. mars. Reglur um tveggja metra nálægðarmörk og grímuskyldu verða óbreyttar.
Veitingastaðir þar sem áfengisveitingar eru leyfðar, þar með talin veitingahús, kaffihús, krár og skemmtistaðir, skulu ekki hafa opið lengur en til kl. 22.00. Sama gildir um spilasali og spilakassa. Veitingar skulu aðeins afgreiddar gestum í sæti. Ekki er heimilt að hleypa inn nýjum gestum eftir kl. 21.00.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði heilbrigðisráðherra minnisblaði með tillögum sínum að breyttum sóttvarnaráðstöfunum á fimmtudagskvöld og voru þær samþykktar á ríkisstjórnarfundi á föstudagsmorgun. Fallist var á allar tillögur sóttvarnalæknis.
Fjöldatakmörk gesta í sviðslistum eru aukin úr 100 í 150 manns og trú- og lífsskoðunarfélögum er heimilt að halda athafnir, þar með taldar útfarir, með 150 manns að hámarki.
Hámarksfjöldi viðskiptavina í verslunum er 150 manns með hliðsjón af fermetrafjölda og sama gildir um gesti á söfnum. Heilsu- og líkamsræktarstöðvar mega opna búningsaðstöðu að nýju og æfingar í tækjasal eru heimilaðar með skilyrðum.
Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra segir að þar sem Covid-19-faraldurinn hafi verið í mikilli rénun hér á landi telji hann réttlætanlegt að ráðast í tilslakanir fyrr en áformað var. Hann leggur þó áherslu á að varlega sé farið þar til bólusetning gegn Covid-19 hafi náð meiri útbreiðslu meðal landsmanna.
Eftirtaldar undantekningar eru frá 20 manna fjöldatakmörkunum en áfram gilda þó ákvæði um tveggja metra nálægðartakmörk og grímuskylda. Fjöldatakmörkin eiga ekki við um börn fædd 2005 eða síðar þar sem þau eru undanþegin ákvæðum um fjöldatakmörk, nálægðarmörk og grímuskyldu.