„Nóttin var upp og niður,“ segir Heimir Árnason, bróðir Einars Hansberg Árnasonar sem reynir nú að setja nýtt heimsmet í réttstöðulyftu. Markmið Einars er að lyfta samanlagt 521 tonni.
Einar byrjaði sólarhrings lyftingar á hádegi í gær. Um klukkan 2:40 í nótt „datt okkar maður svolítið niður, var um 30 mínútur þar og kom svo mjög ferskur inn,“ að sögn Heimis.
Einar ætlaði að lyfta 60 kg og gerði það þangað til fyrr í dag.
„Um klukkan 8 í morgun varð þetta mjög þungt og var þannig í um 30 mínútur, hann talaði lítið sem ekkert og svo kl 8:25 var ákveðið að létta stöngina niður í 45 kg og var það framkvæmt kl 8:26. Síðan þá hefur hann komið hægt og rólega til baka. Endurtekningar og tími var ekki breytt þar sem hann var búinn að vinna sér tæpar 200 endurtekningar í haginn. Orðinn frekar stífur. Metið mun nást en það verður klukkan 13:00 í dag,“ segir Heimir.
Hægt er að heita á Einar og renna öll áheit til velferðar barna, en Einar hefur áður vakið athygli fyrir hetjuleg afrek sín í þágu góðgerðarmála. Hann meðal annars reri, skíðaði og hjólaði eitt sinn 13 þúsund metra af hverju, eða einn metra fyrir hvert barn sem verður fyrir ofbeldi á Íslandi.
Hann gekk einnig 100 kílómetra um árið fyrir Krabbameinssamtök Hvammstanga og árið 2018 reri hann 500 kílómetra til styrktar Kristínu Sif, útvarpskonu á K100, sem þá hafði nýlega misst eiginmann sinn.