„Tíminn vinnur ekki með okkur“

John Snorri á K2 í fyrra.
John Snorri á K2 í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Þyrlur pakistanska hersins hafa í dag leitað Johns Snorra Sigurjónssonar, Alis Sadpara og Juans Pablos Mohrs á fjallinu K2 án árangurs. Vinur Johns Snorra segir að nú sé unnið að því að nota gervihnattarmyndir við leitina. 

Ekk­ert hef­ur spurst til þre­menn­ing­anna síðan klukk­an fimm á föstu­dags­morg­un að ís­lensk­um tíma þegar Said Sa­dp­ara, son­ur Ali, sneri við í búðir þrjú þegar súr­efniskút­ur hans hætti að virka sem skyldi. Said er nú kom­inn heill á húfi í grunn­búðir fjalls­ins. 

„Það eru tvær þyrlur frá pakistanska hernum búnar að vera að leita í morgun á ákveðnum stöðum í fjallinu. Þær fundu í raun og veru ekki neitt og sneru síðan til Skardu, en munu koma til baka, samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum, til að leita á öðru svæði,“ segir Gestur Pétursson, vinur Johns Snorra. 

„Við fengum svo upplýsingar um að það yrðu notaðar flugvélar með sérstökum leitarbúnaði, ekki ósvipað því sem Landhelgisgæslan okkar er með. Við höfum hins vegar ekki fengið staðfestingu á því enn þá að þær hafi klárað leit,“ segir Gestur. 

Segja stuðninginn ómetanlegan 

Nú er unnið að því í samráði við yfirvöld í Pakistan að nota gervihnattamyndir við leitina. 

Spurður hvort mögulegt sé að þremenningarnir hafi leitað skjóls í fjórðu búðum fjallsins segir Gestur:

„Við erum með skilgreindar sviðsmyndir, miðað við þær upplýsingar sem við höfum, og erum síðan að leita samkvæmt þeim sviðsmyndum. Það er ein sviðsmynd, en hún er ekki eins líkleg og aðrar sem við erum að vinna með. Tíminn vinnur ekki með okkur.“

Í grunnbúðum fjallsins eru nú hópar hvíldra göngumanna til taks ef þörf krefur. 

„Það eru hvíldir göngumenn í grunnbúðum, en samkvæmt því verklagi sem er verið að vinna eftir verður ekki flogið með þá í fjallið nema það sé rík ástæða til. Leitarhópar þurfa að fylgja ákveðnum öryggisreglum,“ segir Gestur. 

Talsverður vindur er á svæðinu, en þó minni en gert var ráð fyrir. 

„Við höfum ekki fengið nákvæma veðurspá fyrir daginn í dag, en vindurinn er allavega ekki meiri en svo að þyrlurnar gátu flogið í gær og í dag. Það varð breyting á veðurspánni, sem gefur okkur meiri tíma,“ segir Gestur. 

Að lokum segir Gestur að fjölskylda Johns Snorra vilji ítreka þakklæti til utanríkisþjónustunnar og íslenskra yfirvalda fyrir „ómetanlegan stuðning og fagmennsku“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert