Eigendur veitingastaðarins Just Wingin It – Vængjavagnsins hafa í nógu að snúast í dag. Staðurinn seldi 10 þúsund kjúklingavængi í forsölu í tilefni af Ofurskálinni sem fram fer vestanhafs í kvöld.
Tampa Bay Buccaneers og núverandi meistarar NFL-ruðningsdeildarinnar, Kansas City Chiefs, mætast í Ofurskálarleiknum í Tampaborg í Flórída í kvöld. Um er að ræða stærsta árlega íþróttaviðburðinn í Bandaríkjunum og er þó nokkur fjöldi Íslendinga sem vakir fram eftir til að fylgjast með leiknum.
Fyrir marga þá sem fylgjast með Ofurskálinni eru kjúklingavængir óaðskiljanlegur hluti af kvöldinu.
„Við seldum 10.000 vængi í forpöntun fyrir daginn. Við erum bara með forpöntun í dag, við ætluðum að hafa hefðbundna opnun, en eftirspurnin var svo mikil að við urðum að fara aðra leið. Við ákváðum að við vildum vita hvað væri í vændum, en þetta ber vitni um ást Íslendinga á vængjum, fólk hefur verið að hringja á fullu og er uppfullt af spenningi,“ segir Justin Shouse, annar eigenda Vængjavagnsins.
„Við bjuggumst við því að það yrði mikið að gera á milli klukkan 20 og 23:30 og við ákváðum að hafa forpöntun á þessum tíma. Við vonuðumst til þess að það yrði mikið að gera og skipulögðum okkur þannig, töluðum við kjúklingabirginn okkar til að vera viss um að vera með nóg af öllu. En svo varð allt uppselt í forpöntun á þessum tíma snemma á fimmtudaginn og þá ákváðum við að bæta við forpöntun á milli 16 og 20,“ segir Justin.
Vængjavagninn, eða Just Wingin It, er til húsa í Götumarkaðinum á Klapparstíg, en þar eru fleiri veitingastaðir á vegum Reykjavík Street Food. Justin og viðskiptafélagi hans, Lýður Vignisson, höfðu gengið með hugmyndina að vængjastað í maganum í einhvern tíma áður en þeir fóru að hefja sölu í matarvagni. Síðasta haust færðu þeir síðan starfsemina að mestu í Götumarkaðinn.
„Á þessum degi á síðasta ári vorum við bara að þessu fyrir vini og fjölskyldu. Þegar við byrjuðum vorum við að selja vængi fyrir leiki hjá Stjörnunni, til að dreifa boðskapnum, við vorum ekki einu sinni að selja þá, bara vekja athygli á þessu. Á síðasta ári seldum við þúsund vængi og í ár eru þeir 10 þúsund. Þetta er búið að vera magnað, við erum búnir að hafa augastað á þessum degi síðan við byrjuðum að ræða þessa hugmynd fyrir þremur árum. Ofurskálin er svo sannarlega okkar ofurskál, stærsti dagur ársins ef við gerum þetta vel,“ segir Justin.
Justin er uppalinn í Bandaríkjunum og flutti hingað fyrir 15 árum, en á þeim tíma var hann körfuknattleiksmaður.
„Ég er frá Erie í Pennsylvaníu, sem er klukkutíma suður af Buffalo í New York. Ég er meira að segja í peysu sem á stendur „beint frá Erie“ akkúrat núna, ég er svo stoltur af heimabænum. Þetta svæði er oft kallað „kjúklingavængjasund“, buffalo-vængir eru mjög frægir og það er mjög mikið stolt í kringum þetta,“ segir Justin.
„Hérna á Íslandi erum við með kjötsúpu og lambakjöt sem er svona „menningarnorm“ hérna, en kjúklingavængir eru menningin þarna. Við erum að selja 10 þúsund vængi hérna í dag, en heima í Erie eru örugglega fleiri tugir staða að selja þetta magn í dag. Þetta er nokkuð sem ég hef saknað og ég er mjög stoltur af þessu, og að geta komið með þetta hingað er frábært og viðbrögðin hafa sýnt að það er eftirspurn eftir þessu,“ segir Justin.