Áður verið kvartað undan skólastjóranum

Áslandsskóli í Hafnarfirði.
Áslandsskóli í Hafnarfirði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hafnarfjarðarbæ hefur áður borist kvörtun vegna skólastjóra í Áslandsskóla sem kominn er í ótímabundið veikindaleyfi. Þetta staðfestir Hafnarfjarðarbær í svari við fyrirspurn mbl.is  Samkvæmt heimildum mbl.is var það vegna vegna skilaboða sem þóttu óviðeigandi. 

„Einu sinni hefur formleg kvörtun borist og málið þá skoðað ítarlega. Í framhaldinu fóru af stað samtöl og vinna með hlutaðeigandi,“ segir í skriflegu svari frá Árdísi Ármannsdóttur, samskiptastjóra Hafnarfjarðarbæjar. 

Þá segir jafnframt að skólastjórinn sé óvinnufær og af þeim sökum sé hann kominn í ótímabundið veikindaleyfi. 

Eins og fram hefur komið er umræddur maður Leifur S. Garðarsson. Nýlega bárust fregnir af því að hann hafi verið tekinn af dómaralista KKÍ eftir að hann taldist uppvís að því að senda óviðeigandi netskilaboð til körfuknattleikmanns í meistaraflokki kvenna. Hafði hann meðal annars dæmt leik hjá viðkomandi leikmanni að sögn Hannesar S. Jónssonar, formanns KKÍ. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert