Bjórinn flæðir á barnum á ný

Frá því í byrjun október hefur börum verið gert að hafa lokað og það var því kærkomið þegar fyrsti bjórinn síðan þá var afgreiddur á Kalda Bar í hádeginu. „Þetta var erfitt í vetur, en við erum bara ánægðir að vera að opna aftur,“ segir George Leite, einn eigenda Kalda við Laugaveg.

Þrátt fyrir að enn sé langt í land með að daglegt líf færist í eðlilegt horf þá fagnar fólk öllum skrefum í rétta átt. Í dag er það opnun vínveitingahúsa, aukið svigrúm til að sækja menningarviðburði og aðgengi að sturtuklefum líkamsræktarstöðva svo eitthvað sé nefnt.

Það var létt yfir fólki á Kalda Bar í hádeginu, þar sem eigendur og starfsfólk voru samankomin, enda erfitt að setja sig í spor fólks sem hefur verið sett í þá stöðu að þurfa að loka fyrirtækjum sínum til þess að reyna að hægja á útbreiðslu kórónuveirunnar.

Leite segist vera að skoða það með meðeigendum sínum að taka þátt í að sækja skaðabótamál á hendur ríkinu ásamt öðrum í svipaðri stöðu. Það verði þó metið eftir því sem fram líða stundir. Í augnablikinu sé fyrst og fremst horft fram á veginn. Fyrirkomulagið á vínveitingahúsum verður svipað og það var síðasta sumar þar sem stöðum er skipt niður í hólf. En auk tveggja metra reglu er nú grímuskylda. 

Í myndskeiðinu er rætt við George Leite á Kalda Bar um opnunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert