Tækniminjasafn Austurlands hefur hrundið af stað hópfjármögnun á síðunni Karolina Fund. Fjármögnunarátakið hófst í dag og mun standa til 15. mars, markmiðið er að safna 70.000 evrum sem samsvarar um 10 milljónum króna.
Húsnæði og safnasvæði Tækniminjasafnsins varð fyrir miklum skemmdum þegar stór aurskriða féll á safnasvæðið 18. desember síðastliðinn. Skriðan var sú stærsta sem fallið hefur á byggð á Íslandi.
Fram kemur í tilkynningu frá aðstandendum átaksins að Karolina Fund hafi gert þá undantekningu frá starfsreglum sínum að ekki er nauðsynlegt að söfnunin nái að fullu markmiði sínu. Ef minna safnast mun það engu að síður gagnast safninu.
„Eyðileggingin sem safnið stendur frammi fyrir er gríðarleg. Skriðan gjöreyðilagði tvö húsa þess auk þess sem aðrar fasteignir og safnasvæðið sjálft urðu fyrir umtalsverðum skemmdum. Þá varð stór hluti safnkostsins, hjarta og undirstaða hvers safns, fyrir skriðunni,“ segir í tilkynningunni. Töluvert af safnmunum eyðilögðust og öðrum hefur verið forðað, í misgóðu ástandi, í tímabundið húsnæði.
„Mjög tímafrek vinna er fram undan við að koma skipulagi á, hreinsa og skrá það sem við munum finna. Til þess þurfum við að geta greitt fólki laun, komið upp nýju geymsluhúsnæði og keypt þau aðföng sem til þarf til að tryggja eins góða varðveislu og hægt er,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Kynningarmyndband vegna söfnunarinnar má sjá hér: