Samiðn, Samband iðnfélaga, hvetur stjórnvöld til að ganga lengra til stuðnings þeim sem misst hafa vinnuna í kjölfar Covid-19 og lent í fjárhagserfiðleikum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu í kjölfar fundar sambandsstjórnar Samiðnar.
Fundur sambandsstjórnar Samiðnar ályktaði einnig um mikilvægi átaksins Allir vinna og telur sambandið brýnt að því verði framhaldið.
Í tilkynningu Samiðnar segir að jákvæð teikn séu á lofti í íslensku samfélagi og að stjórnvöld hafi brugðist við samdrætti vegna Covid-19 með margvíslegum hætti.
„Hins vegar er ljóst að ekki hefur verið gengið nógu langt fyrir þá sem hafa orðið fyrir atvinnumissi og eru í fjárhagslegum erfiðleikum. Mikilvægt að þar komi til frekari stuðnings. Samiðn hvetur íslensk stjórnvöld að halda betur utan um þá sem hafa orðið fyrir áföllum á þessum erfiðu tímum,“ segir Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar, í tilkynningunni.
Þá taldi fundurinn að sveitarfélögin hafi ekki staðið við gefin fyrirheit um að taka þátt í viðspyrnunni sem þarf eftir samdráttinn.
„Samiðn telur mikilvægt að sveitarfélög auki við fjárfestingar sínar. Þegar tölulegar staðreyndir eru skoðaðar kemur í ljós að þau hafa því miður ekki staðið við stóru orðin í Covid-faraldrinum,“ segir í tilkynningu Samiðnar.