Í minningu sonar

Björn Hjálmarsson minnist látins sonar, Hjálmars Björnssonar, en Hjálmar hefði …
Björn Hjálmarsson minnist látins sonar, Hjálmars Björnssonar, en Hjálmar hefði orðið 35 ára í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Elsku Hjálm­ar minn, ég veit að þér líður vel í ei­lífðarland­inu. Á þínum björt­ustu stund­um send­ir þú mér vaf­ur­loga í hjarta. Hann stapp­ar í mig stál­inu og hvet­ur mig til góðra verka. Ég þakka þér fyr­ir þau sex­tán stór­kost­legu ár sem við átt­um sam­an. Fyr­ir þau verð ég æv­in­lega þakk­lát­ur.“

Þannig hefst hinsta kveðja Björns Hjálm­ars­son­ar til son­ar síns en í dag eru 35 ár síðan Hjálm­ar Björns­son fædd­ist. 

Björn Hjálm­ars­son, sér­fræðilækn­ir á barna- og ung­linga­geðdeild Land­spít­al­ans (BUGL), hef­ur gengið í gegn­um dimma dali í sorg sinni og sorg­in komið fram sem reiði og aðrar erfiðar til­finn­ing­ar, ekki bara fyr­ir Björn held­ur alla þá sem standa hon­um nærri. Hann seg­ist ekki eiga neitt betra að gefa syni sín­um en að kafa ofan í fyr­ir­gefn­ing­una og láta ólán sitt ekki skapa sig held­ur end­ur­heimta sjálfræði sitt, „end­ur­heimta frelsi mitt,“ seg­ir Björn í sam­tali við blaðamann. 

„Ég minn­ist þess hvað þér þótti gam­an að róla á aldr­in­um tveggja til fimm ára. Þá hvein og söng í þér þulan: „Pabbi ýta mér.“ Þessi setn­ing ómar í huga mér þegar ég minn­ist þín. Svo skríkt­ir þú af gleði, „á hátt, hátt upp í loftið“. Þú varst ætíð mjög hug­rakk­ur en þó svo var­kár líka. Þú fyllt­ir hjörtu okk­ar for­eldra þinna gleði og stolti.

Í grunn­skóla skaraðir þú fram úr sam­nem­end­um fyr­ir sak­ir hæ­versku og hátt­prýði. Þú varðst tíma­bundið fyr­ir einelti. Það var verið að taka af þér húf­una og skóla­tösk­una á leið heim úr skóla, en þér þótti trú­lega sem pabbi og mamma hefðu nóg á sinni könnu, svo þú barst harm þinn í hljóði. Þú leyst­ir úr þessu sjálf­ur. Þú fannst til með gerend­um þínum. Þeir komu frá erfiðum heim­il­um. Einn var eldri en þú en hinir voru í sama bekk.

Ég gleymi aldrei töfra­stund­um okk­ar. Á Þor­láks­messu fór­um við ætíð sam­an í bæ­inn til þess að kaupa síðustu jóla­gjöf­ina; handa henni mömmu þinni. Þú varst al­veg að verða 8 ára. Á þinn und­ur­ljúfa hátt lokkaðir þú mig inn í íþrótta­vöru­versl­un á Lauga­veg­in­um. Í fyrstu átti bara að skoða. Svo komst þú með bras­il­íska landsliðstreyju með aug­un þanin af hrifn­ingu. „Pabbi má ég fá hana, þeir eiga eft­ir að verða heims­meist­ar­ar?“ Þegar ég játaði hélstu áfram og komst svo með stutt­bux­urn­ar og sokk­ana í stíl. Stór biðjandi augu bræddu hjarta mitt svo all­ur landsliðsbún­ing­ur­inn var keypt­ur. Ég gleymi aldrei þakk­læti þínu, Hjálm­ar minn: „Pabbi, þú ert besti pabbi í heimi.“ Svo hélstu áfram: „Strák­arn­ir geta ekk­ert sagt þegar ég kem í svona flott­um bún­ingi í leik­fimi.“ Þú varst að hrista af þér einelt­is­draug­inn Hjálm­ar minn og virðist mér í minn­ing­unni, sem það hafi tek­ist.

Þegar þú varst á aldr­in­um 8 – 9 ára fór­um við oft sam­an tveir á skíði í Bláfjöll­um eft­ir vinnu og skóla. Þú varst hætt­ur í barna­brekk­un­um. Þú komst með mér í stóla­lyft­una. Ég fór niður þar sem bratt­ast var en þú fannst þér þægi­legri og ör­ugg­ari leið. „Betri er krók­ur en kelda.“ Svo hitt­umst við niðri við stóla­lyft­una og fór­um sam­an í henni upp aft­ur. Við vor­um rjóðir í vöng­um og ham­ingju­sam­ir. Þetta voru mér heil­ag­ar stund­ir. Við rædd­um lífs­gát­una á leiðinni upp í lyft­unni. Hug­ar­far þitt og til­svör sann­færðu mig um það að þú vær­ir gull af manni.

Við flutt­um til Rotter­dam í Hollandi svo ég gæti numið barna­lækn­ing­ar. Þar bjugg­um við frá 1995 til 2002, lengst­um í frá­bæru yf­ir­læti. Þú bjargaðir þér strax með því að nota ensk­una sem þú hafðir lært til þess að búa þig und­ir dvöl í út­lönd­um. Þú átt­ir von á því að við fær­um til Banda­ríkj­anna í sér­nám en þau plön brustu vegna glæpa­öldu þar í landi og eyðnifar­ald­urs. Það hefði því ekki átt að koma okk­ur mömmu þinni á óvart hvað þú varst sjálf­bjarga á ensk­unni þegar til Hol­lands kom.

Þú varðst fljótt vin­marg­ur. Þú hafðir yfir þér sjarma innri sem ytri feg­urðar. Þú varst yngri bræðrum þínum sann­ur leiðtogi og vin­ur. Þeir leituðu til þín um hugg­un þegar mamma og pabbi höfðu verið held­ur ströng í upp­eld­inu. Þú misst­ir þinn besta vin 14 ára gam­all. Sá tók að reykja kanna­bis og þú ætlaðir þér ekki inn í þann heim. Eft­ir það tók vin­um meðal stúlkn­anna að fjölga og þú varst far­inn að fara í úti­leg­ur. Mér er ekki grun­laust um að þú haf­ir eign­ast kær­ustu frá Amster­dam áður en þú dóst en þú sagðir okk­ur for­eldr­un­um ekki frá því. Við móðir þín þráðum að þú hefðir feng­ist að kynn­ast róm­an­tískri ást áður en þú dæir.

Ógleym­an­leg­ar sum­ar­ferðir til Þýska­lands, Belg­íu, Frakk­lands, Portúgal og Ítal­íu lifa sem skín­andi ger­sem­ar í huga mér. Þú varst ávallt svo glaðvær og skemmti­leg­ur Hjálm­ar minn. Aldrei með neitt vesen. Þú varst öt­ull að sansa yngri bræður þína þegar þeim lenti sam­an. Þú sast á milli þeirra í aft­ur­sæt­inu og varðveitt­ir friðinn.

Þegar við lét­um hraðbát draga okk­ur á gúmmíban­ana í Portúgal sast þú fremst­ur, Gísli bróðir þinn í miðið og ég aft­ast. Gísli datt af í krappri beygju og ætlaði í land, en þú tald­ir í hann kjark og kennd­ir hon­um aðferðina við að tolla á ban­an­an­um. Hraðbáts-skip­stjór­inn gerði marg­ar til­raun­ir til að fella okk­ur af með kröpp­um beygj­um en við tolld­um all­ir á baki. Hví­lík sig­ur­stund fyr­ir Gísla. Þarna sá ég hversu sann­ur leiðtogi þú reynd­ist í raun.

Svo byrjaðir þú í Ein­stein-Lyce­um-fram­halds­skól­an­um. Þú varst á náms­braut sem heit­ir HAVO. Þú stóðst þig frá­bær­lega. Þú varst elskaður og dáður af mörg­um stúlkn­anna enda full­orðnaðist þú svo ein­stak­lega fal­lega. Frammistaða þín í námi var til eft­ir­breytni og hegðun þín óaðfinn­an­leg.

Við vor­um far­in að telja okk­ur með inn­fædd­um þegar þú lést vo­veif­lega 27.06. 2002. Þú varst eina barna­barnið sem hést í höfuðið á Hjálm­ari afa, en hann lést á sama degi árs­ins og á sama tíma dags­ins 18 árum fyrr. Hann varð bráðkvadd­ur aðeins tæp­lega sex­tug­ur að aldri. Þið dóuð báðir ein­ir. Þenn­an ör­laga­dag týnd­ist þú í fyrsta skipti á æv­inni.

Það var síðasti dag­ur skóla­árs­ins og sum­arið komið. Kvöldið áður feng­um við móðir þín tæki­færi til þess að tjá þér hrifn­ingu okk­ar og aðdáun á frá­bærri frammistöðu þinni í próf­un­um. Við full­yrt­um að þú vær­ir sál sam­heldni og ein­hug­ar í okk­ar fjöl­skyldu. Þú fékkst að laun­um 200 evr­ur. Aur­inn ætlaðir þú að nota með frænda þínum og und­ir­búa þig fyr­ir nám í MH eina önn og dvelja hjá ömmu þinni. Þig langaði að prófa að vera í skóla með sam­lönd­um þínum. Þú varst einnig bú­inn að fá vinnu í ung­linga­vinn­unni sem tíðkaðist þá meðal ung­menna á þess­um aldri. Ferðin heim fór öðru­vísi en ætlað var.

Það var ekk­ert ósagt þegar við fór­um að sofa. Þrem­ur dög­um seinna varst þú á leið heim til Íslands að hitta þinn sann­asta og besta vin, Óla frænda. Þið höfðuð verið sálu­fé­lag­ar frá ung­um aldri. Þið voruð sem ein sál. Framtíðin blasti við þér og við for­eldr­ar þínir höfðum mikl­ar vænt­ing­ar til þín. Þú ætlaðir þér að verða orr­ustuflugmaður í hol­lenska hern­um.

Það var 29.06. 2002 laust eft­ir há­degið sem þú fannst ör­end­ur á fjöl­förn­um stað á ár­bakka við á sem heit­ir Oude Maas. Það er mik­il skipaum­ferð á ánni og hunda­eig­end­ur ganga þarna um. Það var hund­ur gam­als manns sem fann þig Hjálm­ar minn. Þú hafðir ban­væna heila­á­verka og and­litið var illa leikið. Ég mun aldrei gleyma því blóma­hafi sem stúlk­urn­ar í Ein­stein Lyce­um lögðu við fund­arstað þinn með fal­leg­um kveðjuorðum til þín. Allt voru þetta hvít­ar rós­ir. Lit­ur sann­leika, hrein­lynd­is og sak­leys­is.Við biðjum til Guðs að hann upp­lýsi á end­an­um hver fór svona illa með þig elsku Hjálm­ar minn.

Skyndi­legt, óund­ir­búið og hræðilegt frá­fall þitt Hjálm­ar var óbæri­legt högg á okk­ur for­eldra þína og ekki síður yngri bræður þína tvo. Þú hafðir gengið þeim í föðurstað. Ég var svo mikið að heim­an vegna vinnu og doktors­náms. Ég var far­inn til vinnu löngu áður en þið vöknuðuð og þið sofnaðir þegar ég kom heim á kvöld­in. Þú varst hægri hönd og auga­steinn móður þinn­ar og stærsta stoltið mitt. Mig langaði mest að líkj­ast þér í geðprýði og hátt­vísi.

Ég er ákaf­lega þakk­lát­ur fyr­ir að hafa átt svo stór­kost­leg­an pilt sem geislaði af tign, göfgi og reisn og skap­ar mér himna­ríki á jörð í end­ur­minn­ing­um mín­um. Elsku Hjálm­ar minn, þú vild­ir eng­um illt og þú varst fljót­ur að fyr­ir­gefa, þegar á þér var brotið. Það var gæska þín Hjálm­ar minn sem varð þér að falli,“ seg­ir Björn í hinstu kveðju til son­ar.

Hjálmar Björnsson, f. 08.02. 1986, d. 27.06. 2002.
Hjálm­ar Björns­son, f. 08.02. 1986, d. 27.06. 2002. Ljós­mynd úr einka­safni

Í sam­tali við blaðamann seg­ir Björn að fólk sem syrg­ir verði að fá tíma til að gera upp til­finn­ing­ar sín­ar. „Ég hef mikl­ar áhyggj­ur af því að við séum í allt of rík­um mæli að sjúk­dóm­svæða sorg­ina því við sker­um okk­ur frá hinum Norður­landaþjóðunum í geðlyfja­notk­un. Mín reynsla er sú að það verka eng­in lyf á sorg­ina. Það verður að vinna á henni eft­ir öðrum leiðum en með lyfj­um,“ seg­ir Björn sem seg­ir að hon­um finn­ist sem sorg­in eigi und­ir högg að sækja á sama tíma og fleiri segi sig úr þjóðkirkj­unni.

Sorg­in er til­finn­ing, ekki and­leg veik­indi

„Við þurf­um á sál­gæslu­fólki þjóðkirkj­unn­ar að halda og eins og ég sé það þá rís sál­gæsla ofar öll­um trú­ar­brögðum mann­kyns. Þetta er sam­eig­in­leg­ur mann­leg­ur kjarni og for­eldr­ar sem missa barn í íslam eru að syrgja á sama hátt og þeir sem eru búdda­trú­ar. Í þessu sorg­ar­ferli er kjarni sem get­ur sam­einað sundrað mann­kyn. Sorg­in er til­finn­ing, ekki and­leg veik­indi,“ ít­rek­ar Björn.

Björn skipt­ir sorg­inni upp í þrennt; það er lík­am­leg­an sárs­auka, hug­ræn­an og sál­ræn­an sárs­auka. Eft­ir missi sem get­ur verið margs kon­ar – miss­ir barns, for­eldr­is, systkin­is, maka, miss­ir geðheilsu eða at­vinnu.

„Einelti er miss­ir því maður miss­ir fé­lags­lega stöðu sína. Þannig að ég vil ít­reka það að við erum öll syrgj­end­ur með ein­um eða öðrum hætti. Sorg­in er ekki rösk­un og ekki sjúk­dóm­ur. Hún er held­ur ekki þján­ing því þján­ing er það undrameðal sem Guð hef­ur gefið mann­in­um til að lykja um sárs­auka okk­ar þegar hann verður vit­und­inni ofviða. Þannig að það er gríðarleg líkn í þján­ing­unni,“ seg­ir Björn.

Hann tek­ur barn­smissi sem dæmi en þá fyll­ast for­eldr­ar doða vegna þess að sárs­auk­inn er svo óbæri­leg­ur að þeir ráða ekki við hann. Þján­ing­in er vin­ur okk­ar en eins og í mínu til­viki þá get­ur hún orðið að arg­asta óvini, bæt­ir Björn við. „Maður get­ur fest sig í strengj­um þján­ing­ar­inn­ar.“

Hin hug­ræna þján­ing á sér fimm strengi. Fyrst­ur er streng­ur ófriðar­hyggj­unn­ar þar sem reiðin og hefnd­arþorst­inn ræður ríkj­um að sögn Björns. „All­ir sem standa ekki með manni í barn­smissin­um verða óvin­ir manns og fólk fer jafn­vel að forðast syrgj­andi for­eldra vegna reiðiviðbragða sem for­eldri ræður ekki við. Reiðin er í grunn­inn sárs­auki á dýpið. Þetta þýðir  að þess­ir reiðu for­eldr­ar sem missa börn­in sín, ekki síst feður sem fara að berj­ast fyr­ir rétt­læti í mál­um þeirra, stíga á þorska­fer­il sem kall­ast ófriðar­hyggja. Þeir vilja hengja og skjóta alla þrjóta. Aðeins ein lausn er á þess­ari ófriðar­hyggju, það er með hjálp hófstill­unn­ar, að verða friðsam­ur aft­ur og temja sér friðar­hyggju.

Ótt­ast að ólánið komi manni að óvör­um að nýju

Síðan kem­ur hörm­ung­ar­hyggja sem er ekki hót­inu betri en ófriðar­hyggj­an því þegar maður miss­ir barn óvænt þá er höggið óbæri­legt og maður vill vernda sig fyr­ir svo skyndi­leg­um missi. Þannig að maður fer að gera ráð fyr­ir öllu því versta í öll­um aðstæðum til að koma í veg fyr­ir að ólánið komi manni að óvör­um aft­ur. Þetta vek­ur kvíða, viðheld­ur hon­um og ör­vænt­ingu. Ger­ir það að verk­um að maður hætt­ir að þora að elska maka sinn og börn­in af ótta við að missa þau,“ seg­ir Björn en að hans sögn er það með hjálp hug­rekk­is sem fólk nær að til­einka sér eft­ir­vænt­ing­ar­hyggju en hún slær á hörm­ung­ar­hyggj­una. Að hafa eitt­hvað til að hlakka til. Því ef eft­ir­vænt­ing­in er nógu sterk þá slær hún á kvíðann.

„Það sem ég lenti í var sjálfs­fórn­ar­hyggj­an. Sá mig sem píslar­vott. Það hef­ur þá þýðingu að maður varp­ar allri ábyrgð af óláni sínu á aðra. All­ir aðrir beri ábyrgð og maður nær­ist á písl­um sín­um. Hér er það kær­leik­ur­inn sem kem­ur til hjálp­ar. Að hlúa vel að sjálf­um sér og sækja sér hjálp. Með hjálp kær­leik­ans get­ur maður tekið upp heil­brigða sjálfs­rækt­ar­hyggju,“ seg­ir Björn.

„Eitt það al­var­leg­asta í mínu til­felli var rétt­læt­isnauðhyggj­an. Ég taldi að rétt­læti væri al­gilt og óbrigðult lög­mál í heimi hér og það myndi aldrei neitt henda mig. Minn mæli­kv­arði á rétt­lætið var minn eig­in dóm­stóll þannig að ég gekk inn í hlut­verk Guðs al­mátt­ugs að segja hvað væri rétt og hvað órétt­læti,“ seg­ir Björn Hjálm­ars­son. Að hans sögn var það trúhneigðin sem hjálpaði hon­um að losna und­an rétt­læt­isnauðhyggj­unni.

Eitt af því sem Björn nefn­ir sem hug­ræna þján­ingu er full­komn­un­ar­árátt­an. Hún þjóni þeim til­gangi að gera allt 150% vel til þess að verja sig frek­ari höfn­un. Vand­inn er sá að full­komn­un­ar­árátt­an kem­ur í veg fyr­ir ár­ang­ur. Því maður get­ur aldrei klárað neitt þar sem það er aldrei neitt full­gert seg­ir Björn. 

Víta­hring­ur full­komn­un­ar­sinn­ans

Hann vís­ar í grein Ingrid Ku­hlm­an sál­fræðings þar sem  hún tal­ar um þann víta­hring sem full­komn­un­ar­sinn­ar lenda oft í. Þeir setji sér óraun­hæf mark­mið sem þeir ná svo ekki, af aug­ljós­um og óhjá­kvæmi­leg­um ástæðum. Álagið við að ná full­komn­un og forðast mis­tök dreg­ur úr skil­virkni þeirra og ár­angri. Vegna þess hve sjálfs­gagn­rýn­ir þeir eru kenna þeir sjálf­um sér um þenn­an lé­lega ár­ang­ur, sem hef­ur aft­ur nei­kvæð áhrif á sjálfs­álit þeirra auk þess sem kvíði og þung­lyndi geta skotið upp koll­in­um. Á þess­um tíma­punkti gef­ast marg­ir þeirra upp og setja sér ný mark­mið, sann­færðir um að þeir muni ná þeim ef þeir leggja aðeins meira á sig. Þetta hugs­ana­mynst­ur kem­ur víta­hringn­um af stað aft­ur.

Víta­hring­ur­inn lýs­ir sér líka í því að full­komn­un­ar­sinn­ar gera oft ráð fyr­ir eða ótt­ast vanþókn­un eða höfn­un í sam­skipt­um við annað fólk. Ótt­inn hef­ur þau áhrif að þeir fara í vörn þegar þeir fá gagn­rýni. Full­komn­un­ar­sinn­ar eru líka oft gagn­rýn­ir sjálf­ir og gera ómeðvitað mjög há­leit­ar og óraun­hæf­ar kröf­ur til annarra. Auk þess reyna marg­ir að fela mis­tök í stað þess að átta sig á því að með því að opna sig eru meiri lík­ur á að fólki líki við þá. Vegna þessa víta­hrings eiga marg­ir erfitt með að byggja upp náin tengsl.

Fyrsta skrefið við að breyta óæski­legri full­komn­un­ar­áráttu í heil­brigða ár­ang­ursþörf er að átta sig á því að full­komn­un­ar­árátta er blekk­ing. Síðan þarf að tak­ast á við hugs­an­irn­ar sem kynda und­ir full­komn­un­ar­árátt­unni. Að setja sér raun­hæf mark­mið byggð á eig­in þörf­um og því sem þú hef­ur áorkað hingað til. 

„Jeg trúi því sannleiki, að sigurinn þinn, að síðustu vegina …
„Jeg trúi því sann­leiki, að sig­ur­inn þinn, að síðustu veg­ina jafni,“ seg­ir á brjóst­mynd Þor­steins Erl­ings­son­ar en Björn Hjálm­ars­son legg­ur oft leið sína að stytt­unni. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

„Sál­ræn þján­ing er miklu flókn­ari og erfiðari en lík­am­leg og hug­læg,“ seg­ir Björn sem er menntaður barna­lækn­ir með sér­nám í geðlækn­ing­um barna og ung­linga auk smit­sjúk­dóma barna. Hann er jafn­framt með MA-próf í heil­brigðis- og lífsiðfræði.

Þegar átök­in milli ást­ar og hat­urs í sál­inni verða óbæri­leg fyll­umst við tóm­hyggju, tóm­læti. Við sjá­um þetta á fólki sem er eins og því standi á sama um allt og alla. Það er rænu­laust í sínu lífi. Sætt­ir sig við auðnu­leysið og er yf­ir­fullt tóm­læti og tóm­hyggju að sögn Björns.

„Eft­ir að ég missti for­eldra mína réðst ég á barnstrú mína og taldi það skrýt­inn Guð sem hjálpaði bara þeim sem hjálpa sér sjálf­ir. Mér fannst nær að hjálpa okk­ur hinum. Við tóm­hyggj­unni dug­ar ekk­ert annað en að læra að elska sjálf­an sig. Að vera góður við sjálf­an sig og hlúa að sér. Með því að sofa nóg, sem er stærsta heil­brigðis­vanda­mál Íslend­inga þar sem nán­ast eng­inn fær næg­an svefn, hreyfa sig reglu­lega, borða hollt og reglu­lega,“ seg­ir Björn. 

Hjálp­ar hon­um mest að hjálpa öðrum

Að sögn Björns fór hann að leggja meiri rækt við starf sitt og það sem hjálpaði hon­um mest í sorg­inni var að hjálpa öðrum en hann starfar eins og áður sagði á BUGL. Hann seg­ir að það hafi hjálpað hon­um mest frá því hann missti Hjálm­ar að hjálpa börn­um með geðræn­an vanda. „Þegar þeim gekk bet­ur þá leið mér bet­ur.“

Ann­ar streng­ur sál­rænn­ar þján­ing­ar er for­herðing­in. Sem birt­ing­ar­mynd sál­rænn­ar þján­ing­ar lok­ar hún á að fólk geri sér grein fyr­ir eig­in veik­leik­um. „Maður sér þá ekki. For­herðing­in veld­ur því að maður get­ur orðið öskureiður og öskrað á fólk. Þegar það spyr mann hvers vegna maður sé svona reiður þá öskr­ar maður á móti: „Ég er ekk­ert reiður.“ Því for­herðing­in er orðin svo mik­il að maður finn­ur það ekki sjálf­ur,“ seg­ir Björn.

Hann bend­ir á að for­herðing­in geti valdið því að viðkom­andi særi aðra með and­legu, lík­am­legu og jafn­vel kyn­ferðis­legu of­beldi án þess að sjá það tjón sem þetta veld­ur öðrum vegna for­herðing­ar­inn­ar, seg­ir Björn.

Eina leiðin frá for­herðing­unni er í raun­inni guðdóm­ur­inn og að leggja rækt við feg­urðina í hjarta sér, seg­ir Björn. „Iðrun, mis­kunn­semi og fyr­ir­gefn­ingu. Ein­hver mestu friðar­tæki sem við eig­um en erum allt of ódug­leg við að nota. Um leið og maður fyr­ir­gef­ur sjálf­um sér að vera ekki full­kom­inn þá þarf maður ekki eins mikið á for­herðing­unni að halda.“

„Sjálfs­blekk­ing­in get­ur verið svo kröft­ug­ur varn­ar­hátt­ur við sál­ræn­um sárs­auka eins og gerðist í mínu til­felli, ég fór bein­lín­is í geðrof af sorg eft­ir syni mín­um og öll­um þeim ljótu eft­ir­mál­um. Þá er sjálfs­blekk­ing­in orðin al­gjör. Sjálfs­blekk­ing­in á sér svo miklu fleiri birt­ing­ar­mynd­ir því geðrofið er yf­ir­leitt friðsamt og mik­ill mis­skiln­ing­ur að halda því fram að geðsjúk­ir séu ófriðarsinn­ar. Þeir eru það ekki nema við föll­um í þá gildru að beita þá of­beldi. Það er of­beldi gagn­vart geðsjúk­um sem veld­ur þeim viðbrögðum að þeir svara í sömu mynt. Mér finnst allt of mikið kerf­is­bundið of­beldi í gangi gagn­vart fólki í geðrofi í dag og það þarf að milda þetta,“ seg­ir Björn.

Björn tel­ur mik­il­væg­ara að auka sál­gæslu á lokuðum geðdeild­um í stað þess að beita fólk sem þar dvel­ur al­var­leg­um þving­un­um. „Það er mik­ill miss­ir að missa geðheils­una og þá þarf maður á sál­gæsl­unni að halda. Við eig­um svo mikið af dá­sam­legu sál­gæslu­fólki og þurf­um að hverfa frá því vinnu­lagi að lækn­ir sjái um sjúk­ling­inn á meðan hann er lif­andi og þegar hann deyr taki prest­ur­inn við. Þetta þarf að vinna sam­an því við lækn­ar vit­um ákaf­lega lítið um sorg og það var ekki fyrr en ég missti barn sem ég lærði á sorg­ina.“

Sjálfs­blekk­ing­unni get­ur maður ekki unnið á nema gang­ast við því af fús­um og frjáls­um vilja að vera bæði skeik­ull, breysk­ur og hverf­ull. Að maður sé fjarri því full­kom­inn. Að þekkja alla sína veik­leika og styrk­leika og lifa í sátt og sam­lyndi við þá á sama tíma og maður reyn­ir að auka styrk­leika og minnka veik­leika,“ seg­ir Björn í sam­tali við blaðamann.

Björn seg­ir að hann hafi bar­ist eins og ljón fyr­ir því sem hann taldi vera rétt­læti. Það hafi reynst hon­um erfitt að sætta sig við mála­til­búnað lög­regl­unn­ar í Rotter­dam, að Hjálm­ar hafi lát­ist af slys­för­um.

„Að Hjálm­ar hafi ekki aðeins misst líf sitt held­ur einnig ær­una. Það var aug­lýst eft­ir hon­um sem mis­ind­is­manni vegna þess hversu illa svo­kallaðir vin­ir hans báru hon­um sög­una. Þeir sögðu að hann hefði verið dauðadrukk­inn í prófi sem stóðst ekki. Þeir þótt­ust ekki hafa séð hann dag­inn sem hann týnd­ist en svo fannst skólatask­an hans Hjálm­ars heima hjá ein­um þeirra. Þeir eiga ým­is­legt óhreint í poka­horn­inu þess­ir strák­ar og í raun­inni sé ég þetta þannig að þetta voru ör­laga­tím­ar í Hollandi,“ seg­ir Björn og vís­ar þar til dráps­ins á hol­lenska stjórn­mála­mann­in­um Pim Fortuyn en hann var skot­inn til bana fyr­ir utan sjón­varps­stöð í byrj­un maí þetta sama ár.

Björn seg­ir að á þess­um tíma hafi lög­regl­an reynt að sópa öll­um erfiðum mál­um und­ir teppið til þess að kynda ekki und­ir ólg­una í land­inu.

„Ég sá að ég gæti eytt æv­inni í að berj­ast fyr­ir rétti lát­ins son­ar míns,“ seg­ir Björn en við ramm­an reip var að draga þar sem lög­regl­an hafi myndað varn­argarða í kring­um pilt­ana sem Björn tel­ur að hafi átt hlut að máli. „Það sem ég harma mest fyr­ir hönd vina Hjálm­ars var að þeir voru dæmd­ir til að syrgja á þann erfiðasta hátt sem hægt er að hugsa sér – þeir syrgja í lyg­inni.“

„End­ur­heimta frelsi mitt“

Björn flutti Hjálm­ari hug­vekju í Hjalla­kirkju í maí 2016 og þar fór hann í fyr­ir­gefn­ing­ar­ferli gagn­vart bana­mönn­um Hjálm­ars. „Það var erfitt. Fyllti mig tóm­leika og ég varð óvinnu­fær í nokkra daga. Ef maður fer í fyr­ir­gefn­ing­ar­ferli þá verður maður að gefa sér góðan tíma, hlúa vel að sjálf­um sér og ef maður ræður ekki við verk­efnið, að fá þá sál­gæsluaðstoð.“

Hann seg­ir að eig­in­kona hans, Dagný Hængs­dótt­ir, hafi verið hans helsti styrk­ur und­an­far­in ár. Hún fékk hann til að skilja að það er bil á milli áreit­is og viðbragða. „Hversu lengi ætl­ar þú að láta ólán þitt skil­greina þig og þín viðbrögð? Af hverju not­ar þú ekki frelsið þitt til sköp­un­ar?“ hef­ur Björn eft­ir Dag­nýju í sam­tali við blaðamann.

Hjálm­ar send­ir hon­um vaf­ur­loga í hjartað. „Þetta er til­finn­ing sem ég hef enga stjórn á sjálf­ur en gef­ur mér von um að hann hafi það gott þar sem hann er núna. Ég átti ekk­ert annað betra til að gefa syni mín­um en að kafa ofan í fyr­ir­gefn­ing­una og láta ekki ólánið skapa mig held­ur end­ur­heimta mitt sjálfræði. End­ur­heimta frelsi mitt.

Betri krók­ur en kelda – held að ég hafi ratað ofan í all­ar keld­urn­ar í sorg­ar­daln­um þess vegna veit ég hverj­ar þær eru. Vít­in eru til þess að var­ast þau. Ég held að sorg­in sé eitt­hvað sem maður tekst á við alla ævi en ég segi mína sögu til að vara aðra við. Gætið ykk­ar, það eru gildr­ur í sorg­ar­daln­um og reynið að sneiða hjá þeim. Leitið ykk­ur hjálp­ar,“ seg­ir Björn og seg­ist von­ast til þess að viðtalið geti hjálpað öðrum sem eru sömu spor­um og hann. 

„Það get­ur eng­inn hlaupið frá sorg og hún er bæði lífs­nauðsyn­legt og óhjá­kvæmi­legt þroska­ferli. Ef við vönd­um okk­ur þá get­ur hún líka verið gull­fal­leg og þá verður vond­ur sárs­auki góður. Hvort sem það er í lík­am­an­um, hug­an­um eða sál­inni,“ seg­ir Björn Hjálm­ars­son í sam­tali við blaðamann mbl.is. 

„Sál mín er barma­full af þakk­læti, Hjálm­ar minn. Þú verður yl­ur­inn og birt­an í hjarta mínu til æviloka. Fyr­ir það er ég óend­an­lega þakk­lát­ur. Stolt­ur full­yrði ég að þú varst dreng­ur góður.

Guð geym­ir þig í helgu hjarta sér, Hjálm­ar minn. Vertu endi­lega dug­leg­ur að senda mér vaf­ur­loga í hjartað því hann nær­ir mig og styrk­ir til góðra verka. Ég bið þig að hugga og styrkja móður þína og bræður þína tvo sem eru öll að standa sig eins og hetj­ur í þeirri dýpstu sorg sem hægt er að hugsa sér. Takk fyr­ir hreint dá­sam­lega sam­veru,“ skrif­ar Björn Hjálm­ars­son í hinstu kveðju sinni til Hjálm­ars. 

Son­ar­minni

Björn Hjálm­ars­son

Sam­skipta, allra veðra von,
vor skap­höfn er hörð og áköf.
Það var snilld mér að ala son,
sem brot­sjór bar á yztu nöf.

Frum­vaxta; Guði líf þitt fól,
þú, fal­legi snáðinn góði.
Í hjarta mér fann hvergi skjól,
ég hug­sjúk­ur grét í hljóði.

Ei­lífðin geym­ir öll þín spor,
þú, elsku hjart­ans yndið mitt.
Í lundu mér lék aft­ur vor,
lærði að meta lífs­hlaup þitt.

Bjart­ur reynd­ist blíður dreng­ur,
best­ur við for­eldra sína.
Hrein­an tón hver sál­ar­streng­ur,
hermdi upp á feg­urð þína.

Nóg er komið af sorg og sút,
sam­an við syngj­um af gleði.
Leyst­ir á sál mér harðan hnút,
ham­ingja för okk­ar réði.

Mildi kank­vís mig mær­ir mest,
með rjóðar og heit­ar kinn­ar.
Mér er hrein­lyndi hjart­ans best,
og heim­speki sál­ar þinn­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert