Fræðslufundurinn Velferð eldri borgara verður sýndur á RÚV þriðjudaginn 9. febrúar kl. 13.00 – 15.00, þar sem víðtæk fræðsla og upplýsingamiðlun verður höfð að leiðarljósi. Að fundinum standa Öldrunarráð Íslands og LEB – Landssamband eldri borgara.
Fundurinn ber yfirskriftina: „Hverjar eru áskoranir eldri borgara og hvernig er hægt að eiga innihaldsríkt líf alla ævi?“
Öldrunarráð Íslands hefur árlega staðið fyrir ráðstefnu um málefni sem varða eldri borgara. Kemur þó fram í tilkynningu frá Öldrunarráði Íslands og Landssambandi eldri borgara að ekki hafi verið hægt að halda slíka ráðstefnu á kórónuveirutímum.
Öldrunarráð Íslands ákvað því í samstarfi við Landssamband eldri borgara að finna leið til að ná til breiðs hóps þeirra sem eru komnir af léttasta skeiði.
„Úr varð að halda fræðslufund í samstarfi við RÚV. Þar með gafst einstakt tækifæri til að tengjast eldri borgurum um allt land, þar sem samkomutakmörk og fjarlægðir setja engin takmörk. Það er von ÖÍ, LEB og RÚV að fræðslufundurinn nái til sem flestra eldri borgara og aðstandenda þeirra. Enda er dagskrá fræðslufundarins einstaklega fróðleg og áhugaverð.“ Segir í tilkynningunni.
Á fræðslufundinum verða flutt fjölbreytt erindi fólks sem hefur látið málefni eldra fólks sig varða á ýmsum sviðum samfélagsins. Þá mun Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytja opnunarávarp á fundinum.