Þyrla pakistanska hersins flaug aðeins eina ferð um leitarsvæðið á K2 í dag í leit að John Snorra Sigurjónssyni, Muhammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr, enda leyfði veður ekki frekara flug.
Leit með þyrlu hefur verið hætt í dag en reynt verður að halda áfram á morgun. Veðurspáin er þó slæm næstu daga, þannig að óljóst er hvort unnt verður að fljúga þyrlunni. Vefmiðillinn Gripped segir að ólíklega verði flogið.
Leitinni er annars haldið áfram í gegnum myndgreiningu og aðra nútímaleitartækni.
Í tilkynningu frá fjölskyldu Johns Snorra í dag kom fram að fyndust þeir ekki á meðan bjart væri í dag væru mjög litlar líkur á að þeir fyndust á lífi í framhaldinu.
Þremenningarnir sáust síðast á föstudagsmorguninn, þegar sá fjórði í hópnum þurfti að snúa við niður sökum bilunar í súrefnistanki.
Muhammad Ali Sadpara, félagi John Snorra, er eins konar þjóðhetja í Pakistan. Hann er eini Pakistaninn sem hefur klifið átta af fjórtán tindum veraldar sem eru hærri en 8.000 metrar og hefur hann verið títt umfjöllunarefni þarlendra fjölmiðla vegna afreka sinna á þessu sviði.
Um tíma vann hann við flutninga fyrir pakistanska herinn. Telja má að tilraunir pakistanskra yfirvalda til að finna hópinn séu í takt við þá stöðu sem Sadpara hefur.
Kuldinn hefur verið sérstaklega mikill á svæðinu og gerir það aðstæður til leitar þeim mun verri. Hugað er vandlega að öryggi leitarmanna, sem leggja gríðarmikið á sig í þágu leitarinnar.
Fjölskylda John Snorra þakkaði í dag íslenskum stjórnvöldum, borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins, Ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslunni og Geimvísindastofnun fyrir „ómetanlegan stuðning og fagmennsku“ meðan á leitinni hefur staðið.
„Þetta er erfiður tími fyrir okkur fjölskylduna og við óskum eftir því að fá andrými til að takast á við þessa þungbæru stöðu,“ var haft eftir Línu Móeyju Bjarnadóttur, eiginkonu Johns Snorra, í tilkynningu.