„Lengi má gott bæta“

„Við höfum verið þarna með viðveru og leiðbeint fólki og …
„Við höfum verið þarna með viðveru og leiðbeint fólki og verið með tilmæli um það að fólk sé ekki að sækja heldur geri ráðstafanir, og oft er þetta nú alveg til fyrirmyndar og hugsað fyrir öllu, en svo virðast vera brögð að því að fólk er ekki að fara eftir þessu, sem veldur okkur náttúrulega áhyggjum.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það kom okkur svolítið á óvart hvað þetta var há tala,“ segir Jón Pétur Jónsson, yf­ir­lög­regluþjónn og sviðsstjóri landa­mæra­sviðs embætt­is rík­is­lög­reglu­stjóra, um 90 tilvik þar sem verið var að sækja einstaklinga sem voru að koma erlendis frá á Keflavíkurflugvelli um helgina.

„Við höfum verið þarna með viðveru og leiðbeint fólki og verið með tilmæli um það að fólk sé ekki að sækja heldur geri ráðstafanir, og oft er þetta nú alveg til fyrirmyndar og hugsað fyrir öllu, en svo virðast vera brögð að því að fólk er ekki að fara eftir þessu, sem veldur okkur náttúrulega áhyggjum.“

Veikleikagreining

Jón Pétur segir að nú sé einfaldlega verið að fara yfir allt sem hægt sé að gera betur, þar sem staðan innanlands sé orðin svo góð að nú ríði aðallega á að hindra að veiran komist inn í samfélagið í gegnum landamærin. „Þetta er eins konar veikleikagreining. Við hljótum að skoða það að ná betur til fólks, við höfum reynt að gera það með margvíslegum hætti en virðumst ekki vera að ná til allra.

Jón Pétur Jónsson, yf­ir­lög­regluþjónn og sviðsstjóri landa­mæra­sviðs embætt­is rík­is­lög­reglu­stjóra.
Jón Pétur Jónsson, yf­ir­lög­regluþjónn og sviðsstjóri landa­mæra­sviðs embætt­is rík­is­lög­reglu­stjóra. Ljósmynd/Almannavarnir

Ákveðin hætta sé fólgin í því að verið sé að sækja farþega á flugvöllinn. Að meðaltali koma fjórir til landsins með virkt smit á hverjum degi. Þó ekki nema einn þeirra væri sóttur á flugvöllinn á leið í sóttkví, en þeir sem sæktu hann héldu áfram daglegu lífi, væri verið að bjóða hættunni heim og hleypa kórónuveirunni inn í samfélagið.

Erum í lykilstöðu

Annað sem verið sé að skoða sé hvort hægt sé að koma í veg fyrir að þeir sem séu smitaðir leggi af stað í ferðalagið. „Þá kemur helst til álita þetta neikvæða PCR-próf, við höfum talað um 48 tíma fyrir brottför, og það gæti dregið úr líkum á því að smitaður einstaklingur kæmi til landsins. Þetta er eitt af því sem við erum að skoða,“ segir Jón Pétur. „Svo eru dæmi um að fólk hlíti ekki reglum um sóttkví. Langstærstur hluti fer eftir þessu og gerir það mjög vel, en það eru þessi tilvik sem við erum að skoða. Það er spurning hvernig á að bregðast við því og bæta eftirfylgni.“

Jón Pétur segir að síðan faraldurinn hófst hafi stanslaust verið unnið að því að breyta og bæta ferla. „Lengi má gott bæta. Þetta er gott fyrirkomulag og það virkar. Það eru ekki mörg ríki á sama stað og við. 

Áherslan er að reyna að gera þetta eins vel og við getum á landamærum og draga úr þessari áhættu sem getur hlotist af því að veiran berist inn í landið. Auðvitað erum við í ákveðinni lykilstöðu þar sem við erum bara með eina gátt inn í landið, þannig séð, og þetta eru örfáir farþegar. Að meðaltali 170 farþegar á dag í síðustu viku. Út frá því höfum við meiri möguleika en áður að herða þetta eftirlit og eftirfylgni enn frekar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert