Vatnajökulsþjóðgarður og Þingvallaþjóðgarður stefna á hér um bil óbreyttan starfsmannafjölda í sumar þrátt fyrir að óljóst sé hve umfangsmikil starfsemi tengd ferðamönnum verði á tímabilinu.
Hún var takmörkuð síðasta sumar og voru starfsmenn því fengnir í tímabær viðhaldsverkefni. Enn takmarkaðri hefur ferðamannastraumurinn verið í vetur: Á Þingvöllum er Snorrabúð bókstaflega stekkur. Sjálfvirkir teljarar eru farnir að senda viðvörunarmerki því að enginn á leið hjá. Í Skaftafelli voru gistinætur í janúar átta talsins, sem er hrun í samanburði við 260 á sama tímabili í fyrra.
Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, segir varla sálu leggja leið sína í þjóðgarðinn um þessar mundir. „Maður veit að ástandið er sérstakt þegar sjálfvirkir teljarar í Almannagjá eru farnir að senda okkur neyðarboð um að það sé bara alls enginn á ferð,“ segir Einar í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.