Sigmundur getur dregið andann rólega

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi framkvæmdir í Alþingishúsinu. Óskað hefur verið eftir áliti Minjastofnunar og beðið er svars frá henni áður en hægt verður að taka næstu skref.

Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, spurður út í bloggfærslu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, sem hefur miklar áhyggjur af mögulegum framkvæmdum í húsinu.

„Ég held að Sigmundur geti dregið andann rólega. Við munum ekki fara út í neitt sem ekki fæst samþykkt, enda er okkur vel ljóst verðmæti þessa húss og mikilvægi,“ segir Steingrímur.

Hann segir að lengi hafi staðið til að endurnýja húsbúnað og tæknibúnað í þingsalnum. Nefnir hann sem dæmi að húsgögnin séu frá 1987 og kosningakerfið frá 1992. „Þetta er allt orðið þreytt og barn síns tíma,“ segir hann.

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í tengslum við það var ákveðið að skoða betur hvernig væri hægt að skapa betra aðgengi í salnum þannig að ræðustóllinn yrði aðgengilegri, meðal annars fyrir fólk í hjólastól. Þrengslin í salnum séu mikil og best væri ef um 70 sæti gætu verið í salnum.

Horft var á hvort hægt var að stækka op í herbergjunum beggja vegna þingsalarins þannig að þau tengdust salnum betur. Einnig kom sá möguleiki upp að bæta ganginum framan við salinn við hann og dýpka salinn sem því nemur.

Alþingi að kvöldi til.
Alþingi að kvöldi til. mbl.is/Hari

Áhugaverðar tillögur arkitekta

Arkitektar voru fengnir til að líta á þessi mál og segir Steingrímur tillögur þeirra það áhugaverðar að óskað var eftir áliti Minjastofnunar.

Hann bendir á að ef svona lagfæringar geti tryggt notagildi hússins þannig að það haldi sínu hlutverki til langrar framtíðar, hafi það vægi þegar húsafriðunarsjónamið eru metin. Möguleikarnir séu þó afar takmarkaðir miðað við stærðina.

Steingrímur segir að málið hafi verið kynnt vel í forsætisnefnd og teikningar hafi verið sendar þingmönnum. Miðað það sem hann hafi heyrt frá fulltrúa Miðflokksins í forsætisnefnd komi honum það ekki á óvart að Sigmundur Davíð hafi skrifað um málið.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert